02.11.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í D-deild Alþingistíðinda. (3382)

103. mál, radioviti og miðunarstöð

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Till. til þál. á þskj. 180 hljóðar um að skora á ríkisstj. að láta koma til framkvæmda þál. frá Alþingi 1943, um miðunarstöð í Vestmannaeyjum. Frá sama þingi segir svo í ályktun meiri hl. fjvn., og virðist hún hafa veitt máli þessu sérstaka athygli: „Nefndin leggur til, að fé, sem til vitabygginga er ætlað, verði notað til að reisa miðunarstöð í Vestmannaeyjum og radíóvita eða miðunarstöð á Reykjanesi, eftir því sem ríkisstj. að undangenginni rannsókn kann að ákveða“.

Ég veit ekki til, að þetta mál hafi verið frekar undirbúið, a. m. k. hefur því ekkert miðað áfram, síðan þessi þál. var gerð.

Meðal almennings er mikill áhugi á þessu máli, og nýlega fékk ég bréf frá skipstjóra- og stýrimannafél. Verðandi í Vestmannaeyjum, þar sem óskað er eftir, að þessu máli verði sinnt hið bráðasta. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa þetta bréf upp.

„Á fundi skipstjóra- og stýrimannafél. Verðandi í Vestmannaeyjum, er haldinn var í samkomuhúsi Vestmannaeyja 11. okt. 1943 kl. 5 e. m., var samþ. eftirfarandi till. í einu hljóði: „Að fela þm. kjördæmisins, hr. Jóhanni Þ. Jósefssyni, að vinna að því á Alþingi því, er nú stendur yfir, að hér í Vestmannaeyjum verði reist miðunarstöð með stöðugri gæzlu, dag og nótt, svo fljótt sem auðið er.

Um þörfina fyrir slíka stöð hér þarf ekki að útskýra, en þó er rétt að benda á eftirfarandi: Á tímabilinu janúar-maí verða yfir 100 skip, stærri og smærri, að taka hér land á hverjum sólarhring og það oft í náttmyrkri og vondu veðri. Slíkur fjöldi landtaka daglega við óhagstæð veðurskilyrði fela óhjákvæmilega í sér mjög mikla slysahættu, ef skipin geta ekki fengið úr landi nákvæmar leiðbeiningar.

Fiskfloti Vestmannaeyja er yfir 80 stærri og smærri skip, sem taka hér land daglega. Auk þess eru Vestmannaeyjar venjulega fyrsta landkenning skipa, er sigla milli landa. Enn fremur er fjöldi innlendra skipa, er stunda fiskveiðar við Suðvesturland“.

Sjálfur hef ég í raun og veru engu við þetta að bæta. Bréfið skýrir, hversu þetta er áríðandi. Á síðasta þingi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands var þetta til umræðu, og voru niðurstöður þess í samræmi við till. frá 1934 og álit fjvn.

Ég sé, að forseti hefur ákveðið tvær umr. um málið, af því að hér er um fjárveitingu að ræða. Það mun þá fara til fjvn. Vil ég þá mælast til, að Alþingi samþ. þessa till. til síðari umræðu og fjvn.