06.10.1943
Sameinað þing: 17. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í D-deild Alþingistíðinda. (3391)

71. mál, flutningur afla í fiskflutningaskip

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Till. á þskj. 90 er um, að ríkisstj. verði heimilað að leigja skip til fiskflutninga fyrir þær útgerðarstöðvar, sem erfiðast eiga með að koma fiskafla sínum nýjum á markað. Það háttar svo til nú, að nálega allur afli er fluttur út nýr. Flutninga frá Vestmannaeyjum og stöðvum vestur um til Siglufjarðar annast Bretar. Þeir hafa til þess stór skip, og útflutningurinn gengur sæmilega. Leigð hafa verið nokkur smærri skip til að flytja aflann frá smærri höfnum á útflutningsstað. Einnig er fluttur fiskur á bílum frá sumum verstöðvum til stærri staða. Það er því miklu betur kleift fyrir fiskimenn á Vesturlandi að losna við aflann en fyrir austfirzka sjómenn. Tilgangur þáltill. er að bæta úr þessum erfiðleikum, hvað snertir Austurland og Norðausturland. Allar stærri hafnir fyrir austan og norðan losna að vísu við sinn fisk, því að þangað koma flutningaskipin, en smærri hafnirnar verða útundan. En það er álit flestra, sem um þetta mál hugsa, að það mætti með auknu skipulagi ráða bót á þessu, t. d. ef ríkisvaldið aðstoðaði nokkrar smáhafnir til að útvega sér skip, eða, — eins og stendur í þáltill., — greiddi nokkurn kostnað við að leigja skip.

Forseti fiskifélagsins skrifar ýtarlega ritgerð um fiskveiðar landsmanna 1942 í Ægi, og ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa upp fáein orð úr henni. Hann segir m. a.:

„Eins og áður áttu hinar smærri veiðistöðvar í fjórðungunum mjög miklu erfiðara með að koma fiskinum frá sér í fiskkaupaskip en þær stærri. Er ekki nema eðlilegt, að fiskkaupaskipin liggi helzt á þeim höfnum, þar sem von er um að fá farm fljótt. Oft voru því mörg skip í hinum stærri veiðistöðvum, þótt afli væri þar ef til vill ekki mikill, en skipalaust í minni veiðistöðvunum, þó að þar væri ágætur afli. Verða bátar minni veiðistöðvunum því oftast að fara með fiskinn til stærri veiðistöðvanna, þar sem skipin liggja, og leiðir af því, að þeir komast ekki til fiskjar nema annan hvern dag. Er full nauðsyn á, að þetta sé tekið til rækilegrar athugunar og reynt að finna á því einhverja viðunandi lausn“.

Þetta segir forseti fiskifélagsins um ástandið 1942, en í ár er það hálfu verra, því að nú voru miklu færri ísl. skipin, sem fengust við fiskflutninga til Englands.

Samkv. skýrslum, sem ég hef kynnt mér hjá fiskifélaginu, eru austfirzkar stöðvar þær einu, sem verða að salta nokkuð af sínum afla, svo að teljandi sé. Þeir staðir verða fyrir tilfinnanlegu tjóni, því að það er ekki hægt fyrir þann, sem þarf að salta, að fiska jafnmikið, og þeir, sem salta, tapa möguleikunum á að losna við úrgangsfisk og flatfisk. Það væri ekki nema eðlilegt, að ríkið reyndi að aðstoða þessar smáhafnir með því að útvega þeim skip til Englandsferða eða leigja handa þeim smærri báta.

Að vísu er það ástand, sem nú ríkir, bráðabirgðaástand, enda yrði hér ekki um annað að ræða en bráðabirgðalausn. Ég held líka, að ef ríkisstj. vildi athuga þetta mál, þá mundi hún komast að þeirri niðurstöðu, að það ríkir ófremdarástand í fiskútflutningsmálunum og þá mundi hún gera ráðstafanir til að reyna að fá skipulagið bætt.

Hér áður fyrr, þegar fiskurinn var saltaður, var talið nauðsynlegt að hafa alldýran félagsskap og stóra stofnun, sem stjórnaði málinu. En nú, þegar farið er að flytja hann allan út nýjan, er engin stofnun, sem sinnir útflutningsmálunum. Útflutningnum er sleppt lausum og látíð skeika að sköpuðu. Reynslan hefur orðið sú, að smærri staðir verða útundan, auk þess sem jafnvel stærri hafnir hafa orðið hart úti.

Svo ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni, en leyfi mér að fara fram á, að málinu verði vísað til allshn. að loknum umr.

Á 18. fundi í Sþ., 13. okt., var till. tekin til frh. fyrri umr.

Forseti tók málið af dagskrá.