16.12.1943
Sameinað þing: 45. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í D-deild Alþingistíðinda. (3397)

71. mál, flutningur afla í fiskflutningaskip

Frsm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þingfund lengi með máli mínu. Það er kunnara en frá þurfi að segja, hvers virði og hve mikill útflutningur ísfisks hefur verið hin síðustu ár. Það hefur þess vegna mikla þjóðhagslega þýðingu, að gerðar séu ráðstafanir til þess, að þessi útflutningur geti orðið svo mikill sem efni standa frekast til. Jafnframt er hér um að ræða verulegt hagsmunaatriði þeirra manna, sem fiskveiðar stunda frá hinum minni og afskekktari verstöðum, því að með því að losa þá við að flytja fiskinn á veiðibátum sínum til stærri hafna, þar sem fisktökuskipin frekar liggja, gefst þeim meiri tími til að stunda veiðiskapinn sjálfan, og verður þá aflamagn þeirra að sjálfsögðu að sama skapi meira, sem þýðir hvort tveggja í senn: meiri tekjur og betri lífsafkomu þeirra sjálfra og meira útflutningsverðmæti og auknar gjaldeyristekjur þjóðarinnar.

Allsherjarnefnd fellst því á það sjónarmið, sem fram kemur í þáltill., og telur réttmætt, að ríkissjóður verji nokkurri fjárhæð til að greiða fyrir þeim fiskflutningum, sem hér er um að ræða. Nefndin mælir því eindregið með því, að þáltill. verði samþ. með þeim breytingum, sem felast í áliti nefndarinnar á þskj. 659.