14.12.1943
Sameinað þing: 42. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í D-deild Alþingistíðinda. (3407)

147. mál, fávitahæli

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Þessi till. á þskj. 335 felur í sér áskorun til ríkisstj. um að stofna hið fyrsta hæli í sveit fyrir fávita. Það er allmikið af börnum, sem þarfnast þess að fá vist á slíku hæli. Sum þeirra eru algerir fávitar og eiga ekki að vera innan um önnur börn. Önnur eru á lágu vitsmunastigi, en geta þó nokkuð lært, ef til þess eru veitt nauðsynleg skilyrði.

Það eru til l. frá 1936 um stofnun slíks hælis, og undanfarin ár hefur einkastofnun, Sólheimar í Árnessýslu, verið rekin sumpart í þágu þessara barna. En mér er tjáð, að það muni í ráði að breyta til um starfshætti þessa hælis og þá muni þrengjast um húsnæði og aðstöðu til þess að sjá borgið þeim fávitum, sem þarna hafa fengið kennslu, — og er þá einkum átt við börn, sem geta lært eitthvað, en þó ekki fylgt öðrum börnum.

Það hefur verið í málleysingjaskólanum deild fyrir slík börn, en þar er svo þröngt, að það þarf að rýma fávitunum þaðan, enda er óhentugt að hafa málleysingjana og fávitana saman, — þeir vilja læra hvorir af öðrum það, sem síður skyldi.

Þessi till. til þál. er borin fram til þess að örfa hæstv. ríkisstj. til framkvæmda í þessu máli, en það munu vera í rannsókn möguleikar fyrir slíku, og þykir ekki óviðeigandi, að Alþ. láti í ljós áhuga sinn á málinu.

Nú er komið að þinglokum, en þar sem þetta er nokkuð fjárhagsatriði, mun það þurfa tvær umr. En till. þessi liggur svo skýrt fyrir, að mér finnst óþarft að vísa henni til n., og vænti þess frekar, að hv. þm. samþ. hana til síðari umr. án þess.