16.11.1943
Sameinað þing: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í D-deild Alþingistíðinda. (3422)

127. mál, fyrningar fiskiskipa o.fl.

Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Ég hef litið svo á, að fremur bæri að skoða þær aths., er fram hafa komið við þetta mál, sem bendingar en töf. Ég skal þó leitast við að svara þeim, eftir því sem ég get.

Hv. þm. V.-Húnv. spurðist fyrir um það, hvort þessi heimild til sérstaks frádráttar frá skattskyldum tekjum vegna sérstakra afskrifta ætti ekki að ná til annarra en þess og þeirra, er vinna að hagnýtingu sjávarafurða. Það stendur greinilega í tillgr. (SkG: Ég spurði, hvert ekki væri þörf á, að þetta næði til fleiri starfsgreina).

Það er annað mál, en það er vandi að ganga til botns í slíku, og þörfin er bersýnileg mest hjá sjávarútveginum.

Það, sem fyrir okkur flm. vakir, er, að þessi mikilvirku framleiðslutæki verði betur hlutverki sínu vaxin eftir stríð með því að koma í veg fyrir, að fyrirtækin yrðu skuldum vafin, svo að þau yrðu að gefast upp. Menn kannast við það, að útgerðin hefur stundum stöðvazt á ýmsum tímum árs. Og þegar erfiður fjárhagur kemur aftur til skjalanna, þá er hætt við, að menn byrji að stytta úthaldstíma sinn, ef ekkert er létt undir, og vita allir, að það verður til þess, að framleiðslan dregst saman, skortur verður á gjaldeyri og atvinnuleysi hefst. Þetta mundi hvergi koma fram með meiri áhrifum en á tækjum til öflunar sjávarafurða.

Þótt við flytjum þessa till. eins og hún er, þá má vel vera, að þessi hlunnindi eigi víðar við í smærri stíl. En eins og hv. þm. Barð. benti réttilega á, þá er hrein fjarstæða að taka bifreiðar og annað lausafé til athugunar í þessu sambandi. Ég vil aðeins skjóta því hér inn, að það er að vísu rétt, að þeir bílstjórar hafa komizt að ódýrari kaupum, sem keyptu bíla sína fyrir 1939. En vegna aldurs eru þeir bílar líka óhæfari til tekjuöflunar en þeir nýju. Þessi frádráttur getur alls ekki komið til með að ná til lausafjár. Væri t. d. hægt að hugsa sér, að ég gæti átt heimtingu á fyrningarfrádrætti, þótt ég keypti dýra skó eða þess háttar?

Hv. þm. V.-Húnv. festi augun við það, að þessi frádráttur ætti að koma til greina við framtaldar tekjur 1942, og spurði, hvort þá ætti að endurgreiða mönnum af skatti og útsvörum aftur í tímann. Mér finnst nú þessum hv. þm. ekki verða flökurt af því stundum að ákveða skattgreiðslur á menn, er grípi aftur í tímann, og sé ég þá ekkert á móti því gagnstæða um eins árs bil. Og með því að gert er ráð fyrir, að ríkisskattan. reikni þetta út, þá sé ég ekki, að þetta ætti að vera svo miklum vanda bundið. Það er misskilningur hjá hv. þm., er hann talar um umreikning útsvara í þessu sambandi. Þau koma hér ekki til greina. Þau eru gjöld til sveitafélaganna og koma skattalögunum ekkert við.

Hv. 2. þm. N.-M. tók réttilega fram, að ráðstöfun sú, sem gert er ráð fyrir með þessari till., væri gerð til þess að jafna aðstöðu þeirra, er áttu atvinnutæki fyrir stríð, og hinna, sem hafa orðið að kaupa þau með stríðsverði. Markmið till. er þetta og ekki síður það að koma í veg fyrir, að áræði þeirra og trúmennska, er sjávarútveginn hafa stundað áfram, verði til þess, að þeir þurfi að stöðva hann strax að stríðinu loknu. Ég skal játa, að ég hef nokkrar persónur í huga, sem ég veit til þess að hafa látið byggja á undanförnum árum, en einkum er það þó þjóðfélagið í heild, sem mest á í húfi í þessu sambandi.

Hv. 2. þm. N.-M. minntist á ýmsar eignir, sem aflað hefði verið með stríðsverði, og skildist mér, að hann mundi vera fylgjandi aðgerðum í þá átt, sem till. felur í sér, ef þær næðu til alls, sem byggt hefði verið og keypt með stríðsverði. Það er nú svo um húseignir, sem menn hafa byggt í stríðinu, að margir, sem byggðu þær, áttu fé til að afskrifa stórlega mikið af þeim strax. Og um flesta er það að segja, er byggðu yfir meira en sitt eigið höfuð, að þeir hafa fengið gífurleg leigutilboð og fyrirframgreiðslur, svo að þeir hafa fengið margfalda húsaleigu á við þá gömlu í eldri húsum. Þetta leiddi til þess, að margir byggðu meira en ella, og jafnvel hafa menn litið á húsbyggingar sem gróðaveg undanfarið. Hér er því ekki um neitt þjóðfélagsböl að ræða. Þó að menn hættu mikið að byggja, af því það væri svo dýrt, þá jafnast það lítið á við það, að menn hættu að gera út.

En það getur vel verið, að það verði að hætta að halda skipunum til fiskveiða, sem hafa komið mönnum í fjárhagsleg þrot. Hér er því þjóðhagslegt sjónarmið um að ræða og með tilliti til annarra atriða ólíku saman að jafna.

Það er sjálfsagt margt annað en framleiðslutæki sjávarútvegsins, sem leyfa þyrfti mönnum að afskrifa á sama hátt. En það er bara ekki hægt að eltast við allt slíkt. Vil ég þó minnast á eitt, sem hv. þm. Barð. hefur minnzt á, og það eru nýbýlin. Það mun ekki hafa verið mikið um það nú upp á síðkastið að byggja nýbýli. En það er rétt, að ef menn hafa gert það á þessum tímum og hafi menn ekki fengið til þess atbeina ríkisins í ríkara mæli nú á þessum tímum en áður var að koma upp nýbýlum, þá er náttúrlega í þessu tilliti, sem hér er um að ræða, svipað að segja um þau og skipastólinn.

Hv. 2. þm. N.-M. sagðist vilja gera mikinn greinarmun á því, hvort menn hefðu látið smíða skip eða reisa iðnfyrirtæki eða keypt gömul skip eða iðnfyrirtæki. En mér hygg ég, að ekki sé hægt að gera greinarmun á. T. d.: Maður missir bátinn sinn, sem er kannske eina skipið, sem hann á, og kannske er hann formaður á honum sjálfur, og hann vill fá sér skip í staðinn. En það hefur ekki alltaf verið hægt að fá skip smíðuð, og líklega hafa færri af þeim mönnum, sem hafa viljað fá skip smíðuð, getað komizt að því að fá það. Það er kannske eina atvinna þessa manns að stunda fiskveiðar á slíkum báti, og hann vill ná sér í skip, kannske kaupir svo skip, sem er nokkurra ára gamalt. Hann þarf kannske að skipta um vél í því og kaupa í það nýja vél dýru verði. — Ég sé ekki annað en þessi maður sé undir sömu sökina seldur og hinn, sem gat komizt að því að láta smíða nýtt skip, — nema hann sé þá enn verr settur en sá, sem getur smíðað nýtt skip. — Sumir Íslendingar hafa keypt skip frá útlöndum nú á stríðstímanum, einkum í byrjun stríðsins, og þá einkanlega gömul skip. Sé ég því ekki mikinn mun á því, hversu þörfin er mikil að hlaupa undir baggann með mönnum í þessum tvennu kringumstæðum, annars vegar þeim, sem hafa fengið smíðuð ný skip, og hins vegar þeim, sem hafa keypt skip á þessum dýru tímum og orðið oft að endurbæta þau með ærnum kostnaði.

Ég held, að ekki séu fleiri atriði, sem ég þarf að svara í sambandi við fyrirspurnir hv. þm. En hvað því viðvíkur, til hvaða n. þetta mál eigi að fara, þá geri ég það ekki að neinu kappsmáli. Í sameinuðu þingi er ekki nema um tvær n. að ræða. Og af því að þetta mál hefur nokkra fjárhagslega þýðingu fyrir ríkissjóð, þar sem hér er um að ræða sérstakan frádrátt frá skattskyldum tekjum, þá finnst mér. fjvn. eiga að hafa málið til athugunar, og þess vegna stakk ég upp á því. En ég held ekki fast við það, ef þm. vilja annan hátt á því hafa. En til hvaða n., sem málið fer, vona ég, að sú n. sýni málinu þá vinsemd að hraða því, því að það þolir ekki langa bíð í n.