16.11.1943
Sameinað þing: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í D-deild Alþingistíðinda. (3425)

127. mál, fyrningar fiskiskipa o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Ég mun ekki eyða meiri tíma í viðræður við þennan hv. þm. að þessu sinni, því að það er ekki hægt að fá neinar upplýsingar hjá honum. Ég er búinn að bera fram sömu fyrirspurnina tvisvar sinnum, — og hann heldur við sinn keip og gerir mér upp spurningar, sem ég hef ekki borið fram. Við svona menn þýðir ekki að ræða. Ég sé, að hv. meðflm. hans að till. er genginn af fundi, svo að það er ekki hægt að spyrja hann. Veit ég ekki heldur, hvort hann er frekar viðmælandi um þessa hluti en hv. 1. flm. Ég mun þess vegna ekki bera þessar spurningar fram í þriðja sinn, því að ég geri ráð fyrir, að það beri engan árangur. En vitanlega má hv. 7. þm. Reykv. halda því fram í þriðja sinn, ef hann vill, að ég hafi spurt um eitthvað, sem ég hef alls ekki spurt um. Vilji hann ekki láta neinar frekari skýringar í sambandi við þetta mál, að því leyti, sem ekki er hægt að sjá af till., hvað fyrir hv. flm. vakir, þá þýðir ekkert við hann að ræða.