16.12.1943
Sameinað þing: 45. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í D-deild Alþingistíðinda. (3431)

127. mál, fyrningar fiskiskipa o.fl.

Sigurður Kristjánsson:

Af því að ég er flm. þáltill., þá ber mér auðvitað að segja eitthvað um þau nál., sem fram hafa komið í málinu. En þar sem þessi fundur er haldinn að nóttu til, mun ég ekki fara út í málið sjálft beint, enda hafði ég gert fulla grein fyrir málinu við fyrri umr. þess. En ég vil gera grein fyrir því, að brtt., sem meiri hl. hv. allshn. hefur gert við frv., er að mestu eftir fyrir fram samkomulagi, sem var milli mín og fjmrn., að þáltill. yrði breytt í heimild til ríkisstj. í staðinn fyrir fyrirmæli. Og einnig get ég fellt mig við þá brtt. meiri hl. n., að felld sé aftan af þáltill. síðari málsgreinin, því að í raun og veru er þetta ekkert annað en heimild til ríkisstj., þ. e. a. s. ríkisstj. hefur heimild til þess að breyta reglugerð um þetta eftir vild sinni. Það er á hennar valdi. En þessi þáltill. er einungis fram borin til þess, að ríkisstj. hafi þingvilja til þess. Ég get þess vegna sem flm. fallizt á þá brtt., sem hv. meiri hl. allshn. hefur gert um þetta.

Um álit minni hl. hv. allshn. þarf ég ekkert að segja í raun og veru, því að það virðist vera byggt á misskilningi, þar sem minni hl. vill vísa þessu máli til ríkisstj. En þáltill. er, ef hún verður samþ., ekkert annað en það, að málinu er vísað til ríkisstj. til meðferðar hennar með þingvilja að baki.

Ég skal svo ekki segja meira um þetta mál. Ég tel mig hafa gert alveg fullnægjandi grein fyrir þessu máli við fyrri umr. þess. Um skrifl. brtt. hv. þm. V.-Húnv. hef ég ekkert að segja. Ég tek hana ekki alvarlega, og ég geri ekki ráð fyrir, að hæstv. Alþ. a. m. k. geri það. Og allir vita, af hvaða toga hún er spunnin.