16.12.1943
Sameinað þing: 45. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í D-deild Alþingistíðinda. (3432)

127. mál, fyrningar fiskiskipa o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort sá reginmunur er á því að vísa þessu máli til ríkisstj. eða samþ. brtt. frá meiri hl. hv. allshn. Það er nú sem sé þannig ástatt, að því er ég hygg, um þetta mál, að það mun ekki vera hægt að framkvæma skattal. með fyrirmælum reglugerðar eða öðrum ályktunum þannig að veita mismunandi fyrningarfrádrátt. Ég hygg, að skattal. séu alveg ákveðin að þessu leyti, þannig að sami hundraðshlutafrádráttur vegna fyrningar gildi fyrir allar eignir, sem eru sams konar. Mundi því niðurstaðan væntanlega verða sú, þó að þessi þáltill. yrði samþ., að hún yrði skoðuð af ríkisstj. sem bending um að taka til rækilegrar athugunar og undirbúnings hækkun á þeim almenna fyrningarhundraðshluta, sem reikna má á eignum sem þessum. Það gæti verið vit í því að hækka hann, þannig að menn fái að draga meira frá verði eigna fyrir fyrningu en verið hefur. Yrði það þá hagnaður fyrir þá, sem hafa hátt andvirði eigna til þess að reikna fyrningarhundraðshluta af.

Ég læt í ljós þetta álit á skattal. Og ég er viss um, að skilningur minn er réttur í þessu efni. Og ég álít, að þáltill., þótt samþ. verði, geti ekki gert neitt annað en skora á ríkisstj. að stuðla að því, að hækkaður verði sá almenni fyrningarhundraðshluti, sem draga má frá verði eigna. Hins vegar finnst mér eðlilegt, að brtt. hv. þm. V.-Húnv. verði einnig samþ., því að ég hygg, að ekki mæli sanngirni með því að hækka afskriftir af eignum, sem snerta annan höfuðatvinnuveg landsmanna, en skilja eftir í því tilliti hinn aðalatvinnuveginn. Og ég get ekki skilið, að það geti orðið talin skemmd á þáltill., frá sjónarmiði þeirra manna, sem vilja gera þetta fyrir sjávarútveginn, þó að sú brtt. verði samþ. Ég er fyrir mitt leyti fylgjandi því, að fyrningarhundraðshluti verði hækkaður og leyft að fyrna eignir örar nú um sinn en verið hefur. En ef gera á þetta með mismunandi hætti, þarf um það lagabreyt. Ég hef álitið, að það væri bezt að afgreiða það í sambandi við skattal., en vísa þessu máli til ríkisstj. í þeirri von, að hún leggi fram fyrir 10. janúar, er þing á að koma saman aftur, till. um málið, sem gæti orðið hægt að afgreiða svo, að slík lagabreyt. yrði framkvæmd í sambandi við álagningu skatta á tekjur ársins 1943. En ég geri þetta ekki að kappsmáli, af því að það yrði ekki litið á þessa þáltill., þótt samþ. verði, öðruvísi en á þann veg, að með henni væri lagt til við ríkisstj. að hækka fyrningarhundraðshlutann svo sem hún sæi sér fært innan þess ramma, sem skattal. gera kleift.