18.11.1943
Sameinað þing: 32. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í D-deild Alþingistíðinda. (3442)

137. mál, söltun og niðursuða síldar

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. Í sambandi við þessa þáltill., sem hér er borin fram, þykir mér rétt að gefa nokkrar upplýsingar. Ég tel víst, að allir séu samhuga um það, að það sé mikils virði og nauðsynlegt fyrir framtíðarafkomu þjóðarinnar, að það sé sem bezt búið undir komandi ár með því að skipuleggja meðferð þeirra verðmæta, sem við getum framleitt, og það undirbúið, að unnt sé að framleiða meir í verðmæti en áður hefur verið gert. En það eru að sjálfsögðu töluvert miklir örðugleikar á slíkum hlutum eins og stendur, eins og hv. flm. hefur tekið fram, svo sem á því að geta fengið frá útlöndum þau tæki, sem nota þarf, og það efni, sem nota þarf, og þá erfiðleikar í sambandi við að fá þetta flutt til landsins. Þess vegna ætla ég, að það muni vera erfitt eða vonlítið, að það, sem hv. flm. hefur gert að umtalsefni, geti náð fram að ganga í því formi, sem hann hefur hér fram sett, öðruvísi en á þann hátt, að það verði gert að stríðsáhugamáli þeirra þjóða, sem geta selt okkur þessi tæki og þetta efni. Og það er þess vegna, að ég geri ráð fyrir, að það verði næstum ómögulegt að koma fram nokkrum slíkum framkvæmdum hjá okkur, nema það verði gert í sambandi við þá hjálpar- og endurreisnarstofnun, sem hv. flm. hefur vísað til í ræðu sinni og í þáltill. En vegna þess að ég lít þannig á þetta, þá er það líka, að ríkisstj. hefur fyrir nokkru — eða um það leyti, sem sendimennirnir fóru vestur um haf til þess að sitja á þessari fyrstu ráðstefnu hjálparstofnunarinnar, — lagt alveg sérstaklega fyrir þá að athuga nokkuð þau atriði, sem þessi þáltill. fjallar um. Ríkisstj. lagði sérstaklega fyrir fulltrúa sinn á stofnfundi hjálparstofnunarinnar, að það væri gert stofnuninni kunnugt og ljóst, að Ísland hefði sérstaka aðstöðu til þess að geta framleitt mikið af matvælum og það væri væntanlega hægt að stórauka þá framleiðslu frá því, sem nú er, ef til þess væru gerðar nauðsynlegar ráðstafanir eða til þess hjálpað af hjálparstofnuninni. Og var þá fyrir hann lagt sérstaklega að grennslast eftir í fyrsta lagi, hvers konar verkun mundi af hjálparstofnuninni vera talin hentugust á þeim matvælum, bæði landbúnaðarframleiðslu og framleiðslu sjávarútvegsins, sem hjálparstofnunin mundi væntanlega vilja fá keypt frá Íslandi, hvort kjöt ætti að vera frosið eða saltað og hvort fiskur og síldarafurðir ættu að vera frystar eða saltaðar eða hvernig þessar matvörur ættu að vera með farnar. Og enn fremur var sérstaklega fyrir hann lagt að kynna sér það og fá um það sem gleggstar upplýsingar, hvort hjálparstofnunin sæi sér ekki hag í því að nota þau matvælaauðæfi, sem við trúum, að sé á landinu og umhverfis landið, með því að gera fyrir fram samninga við Íslendinga um það, að þeir leggi kapp á að auka framleiðslu sína svo sem mest megi verða. En að sjálfsögðu er það undirstaða þess, að það sé hægt nú á þessum tíma að hefjast handa í stórum stíl um skipulagningu á aukningu framleiðslunnar, svo að við höfum gr undvöll fyrir þeirri framleiðslu, sem nauðsynleg er, og á þann hátt, að við getum selt afurðirnar með því verði, sem borgar framleiðsluna. Það var einnig fyrir fulltrúa ríkisstj. lagt í framhaldi af þessu að athuga sérstaklega, hvort hjálparstofnunin eða Bandaríkjastjórn í sambandi við hjálparstofnunina gæti ekki látið okkur í té vélar til framleiðslu og verkunar matvælanna og efni í umbúðir og umbúðavörurnar sjálfar að einhverju leyti. En eins og hv. þm. er kunnugt, þá hefur þessari hjálparstofnun nýverið verið komið á laggirnar, og er því ekki þess að vænta, að nein svör við þessum spurningum hafi enn borizt. En ég geri mér von um það og mun eftir því ganga að fá svör við þessum spurningum svo fljótt sem kostur er á.

Ég taldi rétt á þessu stigi málsins að upplýsa þetta, að það er þegar fyrir alllöngu af ríkisstj, hendi byrjað að athuga um þetta, sem þáltill. fer fram á, að hve miklu leyti er hægt að tengja saman hjálparstofnunina og starf hennar og framtíðarframleiðslu íslenzku þjóðarinnar.