16.12.1943
Sameinað þing: 45. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í D-deild Alþingistíðinda. (3451)

137. mál, söltun og niðursuða síldar

Frsm. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Þessi þáltill. sætti eins ýtarlegri meðferð í allshn. og kostur var á eftir atvikum. Það voru nú mörg önnur mál þar og vandasöm. En þetta er stórt mál að vísu, og reyndi n. að komast að sem heppilegastri niðurstöðu um afgreiðslu þessarar þáltill. En vegna þess, að talið barst þegar við fyrri umr. málsins að afskiptum utanríkisrn. landsins af slíku máli, sem hér ræðir um, sem er undirbúningur undir og framkvæmd á fyrirhuguðum stórfelldum nýjum útflutningi matvara frá Íslandi, síld og síldarafurðum, og með því að utanrh. tók til máls þegar í upphafi umr. og lét þetta mál sig skipta, þá þótti hlýða að leita nánari upplýsinga hjá honum og ráðuneyti hans um þá hugmynd, sem hér liggur fyrir. Og í nál. frá allshn. á þskj. 617 er nokkuð ýtarleg grein gerð fyrir afstöðu n. til málsins og lýst þeirri brtt., sem n. gerir. Þar er og flutt erindi, sem allshn. barst frá utanrn. um þetta mál, og kemur þar í ljós, að hæstv. ráðh. og ríkisstj. hafa haft auga fyrir þeim málum, sem hv. flm. þáltill. á þskj. 287 gera að umtalsefni og tillöguefni, sem sé söltun og niðursuðu á síld og auk þess öðrum afurðum, með tilliti til þeirrar hjálparstarfsemi, sem hin alþjóðlega hjálparstarfsemi kemur til með að hafa með höndum. Það var enginn ágreiningur meðal n. um framgang þeirrar hugmyndar, sem í þáltill. felst, eins og vænta má, því að ef hægt væri að koma því í framkvæmd, væri þar um mikið þjóðþrifamál að ræða. Ágreiningur var einungis um það í n., hvort kjósa ætti sérstaka nefnd í þetta mál, og varð það úr, að einn hv. nm. hélt þeirri skoðun fram til streitu og þá um leið því, að þáltill., eins og hún í upphafi var, yrði samþ. óbreytt. Hinir nm. voru, eins og ég lýsti, hugmyndinni fylgjandi, en viðurkenndu það — eins og reyndar nm. allir —, að grundvöllurinn undir slíkum aðgerðum hljóti að vera sá, að ríkisstj. takist að láta undirbúa og gera fasta samninga um kaup á þessum vörum, áður en í það væri ráðizt að efna til stóraukinnar framleiðslu til útflutnings á þessum vörum.

Þá þótti nm. öllum rétt að láta þáltill. þessa ná til enn þá fleiri afurða en síldar einnar, því að það er vitanlegt, að við höfum bæði af fiski og fiskafurðum fleira ætilegt en síldina. Og þá þótti rétt að taka með landbúnaðarafurðir, kjöt, sem af þeim afurðum er líklegast til þess að geta fengið viðurkenningu og hlyti að geta fengið viðurkenningu sem góð neyzluvara undir þessum kringumstæðum. Og í þeirri brtt., sem meiri hl. allshn. flytur, er, eins og sjá má á þskj. 617, orðalagi þáltill. breytt í þá átt. Og þá um leið kemur fram í þessari brtt. sá ágreiningur á milli nm., sem ég drap á, þ. e. a. s. skoðanamunurinn á því, hvort heppilegra væri að hafa sérstaka n. í þessu máli starfandi eða fela ríkisstj. forgöngu í málinu og benda henni á til ráðuneytis tvær stofnanir í landinu, sem ráða yfir mestri sérþekkingu viðvíkjandi útflutningi á þeim afurðum, sem hér um ræðir. Og virtist meiri hl. n. þá sjálfsagt að benda á þessar stofnanir: Síldarútvegsnefnd, Samband ísl. samvinnufélaga og Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, sem hver um sig ræður yfir útflutningi og sölu á þessum helztu vörutegundum. Þarf ekki að lýsa því fyrir hv. þm., að síldarútvegsnefnd á að hafa innan sinna vébanda menn með fullkomna þekkingu á síldarframleiðslu og síldarsölu. SÍS hefur með höndum mestan útflutning á landbúnaðarvörum, og SÍF hefur með höndum sölu saltfisks og því um líks, sem ekki er ólíklegt, að til greina gæti komið, ef um sölu á fiski til notkunar í Suður-Evrópu væri að ræða.

Til þess að tefja ekki fyrir málinu, skal ég ekki hafa þessi orð fleiri.