28.09.1943
Sameinað þing: 15. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í D-deild Alþingistíðinda. (3458)

41. mál, nýbýlamyndun

Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Herra forseti. Ég hef hér ásamt tveim öðrum þm. borið fram till. til þál. á þskj. 51 um rannsókn á skilyrðum til nýbýlamyndunar. Á síðasta þingi hafði ég flutt till., sem gekk nokkuð í svipaða átt. Sú till. varð ekki afgr. á því þingi, hún dagaði uppi, og það er meðfram vegna þess, sem þessi till. er nú flutt, en aðeins í víðtækara formi en sú till. var, sem ég flutti á síðasta þingi.

Eins og kunnugt er, hafa verið byggð allmörg nýbýli í landinu síðan l. um nýbýlamyndun voru samþ., eða um 300 nýbýli víðsvegar um landið. Nú er það vitað, að þessar framkvæmdir eru nokkuð af handahófi og fara mikið eftir því, hvar umsækjendum um styrk hefur tekizt að útvega sér land til þess að reisa nýbýli á, en það er ekki sá undirbúningur, sem æskilegur er í sambandi við framtíðarskipulag í landinu í þessu efni. Nú er það vitað, að það eru margir örðugleikar, sem fylgja því jafnan að stofna nýbýli, og eitt af því, sem kannske hefur hvað mest aftrað ungum mönnum frá því að ráðast í slík fyrirtæki á undanförnum árum, hefur verið það, hve erfitt hefur verið að ná í hagkvæm lönd til þess að reisa nýbýli á. Þessi till. um rannsókn á skilyrðum til nýbýlamyndunar er hugsuð á þá leið, að reynt sé af því opinbera að bæta úr þeim ágöllum, sem staðið hafa í vegi fyrir stofnun nýbýla á undanförnum árum, og að fram fari rannsókn á því, hvar bezt skilyrði eru, bæði fyrir einstök býli og býlahverfi, sem margir álíta, að eigi að stefna að í nýbýlastarfi okkar, og rannsaka, hvernig hagar rétti á því landi, sem heppilegast er talið í þessu efni til framkvæmda.

Við flm. höfum talið eðlilegt, að nýbýlastjórn verði falið að framkvæma skýrslusöfnun í þessu efni og rannsókn og að hún legði síðan skýrslur sínar og rannsóknir fyrir ríkisstj. ásamt till. um það, hvernig nýbýlastj. teldi heppilegast að hefja þetta starf á hverjum stað, þ. e. hvernig eignarrétti hagar og hvernig hægt væri að ná eignarhaldi á löndunum til þess að veita ungum mönnum aðgang að þeim til þess að stofna nýbýli í framtíðinni. Það er og vitað, að ríkið ræður yfir allmiklum jarðeignum, sem vel getur komið til mála að nota í þessu skyni, og stór hluti af landinu, sem liggur vel við samgöngum, er algerlega óræktaður og ónotaður, og þó það liggi vel fyrir til ræktunar, er það til fyrirstöðu því, að nýbýli séu reist, hvernig eignarréttinum er háttað á löndunum.

Sem sagt, eins og ég hef tekið fram, er tilætlunin sú með þessari þáltill., að reynt sé að koma á betra skipulagi um framkvæmd þessara mála heldur en verið hefur fram til þessa, svo að auðvelt sé að halda áfram á þeirri braut, sem lögð var með nýbýlal. fyrir nokkrum árum, því að það er sjáanlegt, að það verður að gera, svo framarlega sem íslenzka þjóðin ætlar að reyna að halda áfram á þeirri braut að gera landið sér undirgefið og reyna að hagnýta sér það, sem landið ber í skauti sínu, og vera ræktunarþjóð meira en verið hefur.

Ég vil óska þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn. og 2. umr.