28.09.1943
Sameinað þing: 15. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í D-deild Alþingistíðinda. (3459)

41. mál, nýbýlamyndun

Þóroddur Guðmundsson:

Um þessa þáltill., sem liggur fyrir, má segja svipað eins og einn þm. komst að orði hér um daginn, að fljótt á litið lítur þetta mál sakleysislega út, og mætti segja, að fljótt á litið væri þetta gagnleg og góð till. En það er sérstaklega grg. með þessari þáltill., sem gefur manni tilefni til að hugsa, að raunverulega sé ekki allt sagt í till., sem meint er með flutningi hennar. Það er bersýnilega ætlazt til þess, að Alþingi geri ráðstafanir til að koma upp nýjum smábýlum, og það er ekki vafi á því, að eftir að þessi rannsókn hefur farið fram, sem stungið er upp á hér, munu koma, bæði frá flm. og öðrum hinum svokölluðu fulltrúum bænda, háværar kröfur um, að þessum býlum verði komið upp. Það er talað um býli og býlahverfi, en það er meiningin að koma ekki upp býlahverfum eða samyrkjubúum, heldur er hugmyndin smábýli. Ég verð að segja, að mér virðist það ekki vera mjög háreist mark, sem þessir bændaleiðtogar eygja úti í framtíðinni, ef það er þeirra draumur, að landbúnaðurinn verði rekinn í smákofum með nokkrum dagsláttum í kring, af einstaklingum, sem ekki hafa neina möguleika til þess að komast í samvinnu við aðra. Mér finnst það vera í litlu samræmi, að jafnframt því, sem verið er að tala um smábýli, sé verið að tala um nýtízku vélar í þágu landbúnaðarins, því að það er vitað, að á meðan landbúnaðurinn er rekinn á smábýlum, er ekki hægt að nota nýtízku vélar nema að litlu leyti. Það kemur fram í grg., hvað það er, sem mennirnir ætlast til, þar sem talað er um, að „nýbýli þau, sem reist hafa verið undanfarið, fullnægja hvergi nærri þeirri þörf, sem fyrir er. Á næstu árum þarf því að taka málið enn fastari tökum en verið hefur, rækta stór landsvæði og reisa að nýju miklu fleiri býli en þegar er búið“. Það er ekki hægt að fá greinilegar, hvað það er, sem fyrir flm. vakir, heldur en einmitt með því, sem þeir segja þarna. Það er sennilega mjög skynsamlegt og sjálfsagt að láta fara fram rannsókn á ræktunarskilyrðum, og ekkert á móti því, að Alþingi ýti jafnvel enn betur en áður undir það, en ég vil minna flm. á það, að það er ekki lengra síðan en 9. febr. s. l., að afgr. var frá Alþingi þál., þar sem farið er fram á, að Búnaðarfélag Íslands láti fram fara rannsókn viðvíkjandi landbúnaðinum, „hvar heppilegust eru skilyrði með tilliti til ræktunar, rafvirkjunar, samgangna o. s. frv. til landbúnaðarframleiðslu í ýmsum greinum, með aukið þéttbýli og stofnun byggðahverfa fyrir augum“. Það er bersýnilegt, að eftir þál. frá í fyrra eru möguleikar til þess að koma fram ræktun í stórum stíl, þannig að þeir, sem við ræktun fást, séu ekki dæmdir til þess að lifa eins og fátækir smábændur verða nú að gera og eins og smábændur hljóta að verða neyddir til, ef þeir setjast að á býlum, sem ríkið á, og byrja búskap efnalausir. Og það er auðvitað þetta, sem fyrir hv. flm. þessarar þáltill. hefur vakað, að þeir vilja ekki stór samyrkjubú, heldur smábýlin. Þess vegna nægir þeim ekki þál. frá í fyrra, sem samþ. var 9. sept. Þess vegna væri fróðlegt að vita, hvað Búnaðarfélag Íslands hefur gert í þessum efnum eftir þál., sem í fyrra var samþ. Og af því að þeir, sem eru í stjórn Búnaðarfélags Íslands, eiga hér sæti á þingi, þá ættu þeir undir umr. að geta gefið hér upplýsingar um, hvort Búnaðarfélag Íslands hefur algerlega hundsað þessa þál. frá í fyrra eða hvort það hefur eitthvað gert og þá hvað það er, sem gert hefur verið.

Það er enn eitt, sem vert er að minnast á í þessu sambandi, þegar talað er um framtíð landbúnaðarins, að svo framarlega að það ætti að hverfa að því ráði í sambandi við aukna ræktun, að stuðlað yrði að því að koma á stórbúum, þá er augsýnilegt, að stórrekstur í landbúnaði er ekki hægt að stunda á okkar landi öðruvísi en með samyrkjubúskap. Því að það er ekki til neinn vinnukraftur í sveitum, sem menn geta hugsað sér, að hjá einstaklingum vildi vinna, en vildi þó vinna hjá búunum. Og mér finnst a. m. k. ekki ólíklegt, að þeim gömlu forkólfum samvinnustefnunnar í landinu, — þó að þeir tali yfirleitt lítið um það — hv. þm., sem barizt var fyrir af samvinnumönnum á fyrstu árum þeirrar stefnu hér, — mér finnst ekki ólíklegt, að þeim gæti dottið í hug, að framtíð landbúnaðarins væri undir því komin, að tekin væri upp samyrkja og samvinna í framleiðslunni í sveitum.

Í grg. þessarar þáltill. er talað um landbúnað sem annan höfuðatvinnuveg þjóðarinnar, og er þar sagt svo, með leyfi hæstv. forseta, að landbúnaðurinn sé „sá atvinnuvegur, sem jafnan mun reynast traustastur á að byggja hér eftir sem hingað til“. Það er óneitanlega töluvert kaldrifjað, að menn skuli slá öðru eins og þessu fram, þegar eitthvert mesta vandamál þjóðarinnar er að halda uppi þessum atvinnuvegi til þess að hann hrynji ekki í rústir. Þó að maður skyggnist ekki lengra en til síðast liðins árs, þá hafa verið heimtaðar handa þessum atvinnuvegi beinir styrkir til þess að halda honum uppi, og þar að auki óbeinir styrkir, með því að afurðirnar frá landbúnaðinum hafa verið seldar með óeðlilega háu verði innanlands. Því að á normal tímum er ekki að tala um annað markaðsverð á landbúnaðarafurðum er það, sem varan selst fyrir á erlendum markaði. En almenningur hefur tekið á sig að borga miklu hærra verð heldur en eðlilegt verð má teljast fyrir landbúnaðarafurðirnar. — Og svo er talað um, að þetta sé atvinnuvegur, sem sé traustur á að byggja fyrir þjóðina! Ef um aðra atvinnuvegi hefði verið líkt ástatt og landbúnaðinn, hver hefði þá átt að greiða þessa styrki, sem landbúnaðurinn hefur fengið, sem ég skal ekki mótmæla, að landbúnaðurinn hafi þurft að fá?

Það er vert að benda á það, að það virðist á umliðnum árum hafa verið ólán Íslendinga, að þeir hafa litið á landbúnaðinn sem þann atvinnuveg, sem traustastur væri á að byggja, og þeir hafa ekki skilið, að þeir búa í köldu landi, þar sem landbúnaður hefur slæm skilyrði, en fiskimið eru rétt við landsteinana. Þetta hefur verið ólán íslenzkra stjórnarvalda, sem stórbændur hafa getað viðhaldið með því að skapa það almenningsálit, að landbúnaðurinn sé traustasti atvinnuvegur þessa lands. Og það er líklega það álit og sú skoðun, sem orsakað hefur hungurdauðann hér á landi, er þúsundir og aftur þúsundir hafa farizt af hungri hér á landi fyrr á öldum. Þegar skyggnzt er um í atvinnulífi þjóðarinnar, þá er bersýnilegt, að það er mjög mikils virði, að hún geti notfært sér þá auðlegð, sem landið á, og geri sér ekki grillur með að leita þar helzt að auði, sem hann er ekki fyrir hendi. Það er sárt og næstum grátlegt að vita til þess í góðu veðri, þegar sjórinn er fullur af síld rétt við landsteinana, svo að hann er eins og krap á margra mílna svæði, þá skuli menn vera að hjakka með orfi og ljá til að skrapa saman nokkra hesta til þess að heyja fyrir kannske 30–40 rollum.

Það væri heimska að segja, að allir ættu að hætta að búa. En þegar sjórinn kringum landið er fullur af góðum og verðmætum fiski, eins og mjög oft er hér, þá er sjávarútvegurinn sá atvinnuvegur, sem er traustastur á að byggja. Fiskimiðin eru okkar auðlegð, og þjóðin þarf að gera sér grein fyrir því fyrst og fremst, að hún þarf ný tæki til þess að hagnýta sér sem bezt fiskimiðin og verksmiðjur til þess að geta gert sér aflann enn þá verðmætari. Því að þannig er háttað atvinnuvegum landsmanna, að það er kannske hægt að framleiða 300 til 400 kg af góðri síld fyrir sama verð eins og 100 kg af saltkjöti. Og þá getur maður séð, að ef ætti að senda mann til þess að selja afurðir okkar á erlendum markaði, þá mundi hann telja sig færari um að selja góða síld heldur en kjöt til þess að fá sama andvirði, ef hann hefði þrefalt meira magn af síld á móts við kjötið. Það er því sýnilega réttara að kosta kapps um að auka síldarframleiðsluna fremur en kjötframleiðsluna, og þá ætti sízt að stuðla að kjötframleiðslunni með því að stuðla að því að koma upp fjölda smábýla út um hinar dreifðu byggðir landsins.

Það er mikið talað um það hér, að það sé nauðsynlegt, að fólkið fari ekki úr sveitunum að sjávarsíðunni. En það eru litlar líkur til þess, jafnvel þó að það væri hyggilegt, að fólkið væri kyrrt í sveitunum, að þessi þáltill., þó samþ. væri, miðaði til þess, að fólkið yrði kyrrt í sveitunum. Flutningur unga fólksins úr sveitunum verður ekki stöðvaður með því að fjölga smábýlum í sveitinni. Unga fólkið vill ekki vera í sveitunum, nema byggðin sé færð saman í smáþorp, og það verður því aðeins hægt að framkvæma, að komið verði upp samyrkjubúum og það þar, sem líklegt er, að fólkið geti haft nokkuð upp úr sínu striti. Og það er leiðinlegt fyrir forkólfa framsóknarmanna, eftir að hafa ráðið öllu um landbúnaðarlöggjöfina og einnig yfir samtökum bænda í tvo áratugi, þá skuli það vera svo — ekki eins og hv. 2. þm. S.-M. (EystJ) sagði, að samtök bænda hefðu komið til vegar, að stéttin væri komin úr örbirgð til bjargálna —, heldur skuli fólkið flýja úr sveitunum eins og það getur og bændur skuli vera illa staddir þrátt fyrir það verð, sem er á landbúnaðarafurðunum nú. Allur fjöldi smábænda á ekki neitt til og vill fyrir alla muni komast burt úr sveitinni. Svona er ástandið eftir áratugastjórn framsóknarmanna á landbúnaðarmálefnum. Það er leiðinlegt fyrir þá að verða að viðurkenna, að þeirra stjórn á málefnum landbúnaðarins skuli hafa leitt af sér það ástand í þeirri atvinnugrein, sem raun er á í dag. Það er enginn efi á því, að það er þjóðhættulegt, að þessi stefna, sem Framsfl. er hér með, verði ofan á og almenningur fylki sér um hana, að mokað verði milljónum úr ríkissjóðnum til þess að koma upp smábýlum og að því verði slegið föstu, að traustasti atvinnuvegurinn fyrir landsmenn að byggja á sé sveitabúskapurinn. Og það verða þeir að vita, þessir góðu bændaleiðtogar, að hingað til hafa þeir notað sjávarútveginn eins og hænu til að verpa eggjum til hagnaðar landbúnaðinum. En það koma bara engin egg, ef hænan er skorin. Og ef sjávarútvegurinn verður lamaður með því að láta hann þjóna landbúnaðinum óhæfilega mikið, þá koma sveitunum engin gullegg lengur úr þeirri átt í framtíðinni. Það er nú komið svo, að þessi stefna Framsfl. er svo þjóðhættuleg, að það er nauðsynlegt, að menn annarra flokka staldri við og taki saman höndum og reyni að hindra það, að þessi stefna verði ofan á. Því að það er ekki einungis, að hún verði til þess að hefta framtak sjávarútvegsins, heldur verður hún líka bændum landsins til óhagnaðar. Þó mun þar vera ofurlítill hópur undan skilinn, sem ég skal leyfa mér að koma inn á með örfáum orðum.

Hvernig stendur á því, að Framsfl. leyfir sér að koma fram með fullyrðingar eins og þær, að landbúnaðurinn muni nú og í framtíðinni verða traustasti atvinnuvegur þjóðarinnar á að byggja, og ætlar sér að byggja upp landbúnaðarlöggjöfina á þeim forsendum? Ég held, að fjöldamörgum framsóknarmönnum sé ljóst, að hverju stefnir. En hagsmunir bænda annars vegar reka sig á hagsmuni þeirra manna hins vegar, sem hafa sölsað undir sig öll gögn og tæki í samtökum bænda, sem eru fyrst og fremst forsvarsmenn Framsfl. og flokkurinn í heild. Því að það er vitanlegt, að það valdakerfi, sem Framsfl. og stjórn hans hefur byggt upp, er einmitt byggt á því, að sveitabúskapur sé rekinn á smábýlum, eins og hingað til hefur verið. Og það er sá eini hópur manna í landinu, sem getur haft hagsmuni af því, að haldið sé fram slíkum firrum eins og þeim, að landbúnaðurinn sé traustasti atvinnuvegur landsins. Það eru aðeins þeir pólitísku braskarar, sem að þessu standa, sem hag hafa af þessu. Þeir eru eini hópurinn, sem hefur hag af því, að þessu sé haldið fram. Því að allur fjöldinn af þessum smábændum getur ekki haft í sig og á nema með styrkjum. Og ef hægt er að halda þeim við smábúskapinn fátækum heima í dreifbýlinu, þá er hægt fyrir fulltrúa þeirra að koma með kröfur um, að kastað sé í þá ölmusum og styrkjum til þess að þeir geti lifað. Og menn, sem bundnir eru við þessar jarðir, verða að vera þar, hvort sem þeim líkar það vel eða illa. Hins vegar er líka möguleiki til þess með þessum aðferðum að gera stórbændurna enn ríkari, en þeir ráða öllu í flokknum. Framsfl. hefur svikið allar sínar æskuhugsjónir. Nú er það stefna hans að geta komið upp sem allra flestum smábýlum úti um landið. Þetta er í samræmi við það ábyrgðar leysi, sem þessi þjóðhættulegi flokkur hefur sýnt undanfarið. Því að hann hefur ekki hikað við það með samtökum bænda, sem hafa sölsað undir sig völdin, að nota þau ábyrgðarlaust sem dráttardýr fyrir sinni pólitísku kerru. Og þar er sama, hvort um er að ræða Búnaðarfélag Íslands eða Samband ísl. samvinnufélaga eða hvort það er samvinnuskólinn. Þessir menn láta tekjur af almannafé renna til þess að styrkja flokkspólitískan skóla fyrir Framsfl. Og eftir að Framsfl. er horfinn frá öllum sínum æskuhugsjónum, virðist það vera draumur, sem forráðamenn hans hefur dreymt, sem eigi að vera ráðandi í allri hans pólitík, að taka að sér að framkvæma ýmis verk fyrir stóratvinnurekendur, sem hann jafnvel sjálfan klígjar við, með því þá kannske að koma af stað illindum milli bænda og verkamanna. Þannig gætu þeir kannske komið sér í aðstöðu til að selja sig. Það eru dæmi til þess, að bændaflokkar hafa reynt þetta, svo sem t. d. í Finnlandi, en þar tókst það ekki. En það hneigist allt í þessa átt hjá Framsfl. Framsfl. hefur að ýmsu leyti góða aðstöðu, eins og t. d. hjá Sjálfstfl., vegna þess að hann hefur góða áróðursaðstöðu í sveitum með öllum sínum tækjum. Þess vegna hefur honum einmitt tekizt að hafa þá menn, sem Sjálfstfl. hefur komið að við alþingiskosningar í sveitunum, þannig, að þeir eru með annan fótinn í Framsfl. og sumir af hræðslu. Þeir eru svo óttaslegnir, ef þeir lenda í andstöðu við Framsfl., að þeir eru eins og sjúkir menn. En þessir blessaðir sjálfstæðismenn, sem Framsfl. á svo mikil ítök í, þeir mundu græða á því kjósendafylgi að þora að taka á móti Framsfl. En þeir hafa ekki þorað það af ótta við, að Framsfl. mundi taka frá þeim kjósendur.

Það er að sjálfsögðu óþarfi að láta þessa þáltill. fara til n., en ef það verður gert, þá vil ég enn undirstrika það, að það mætti láta sér nægja þá þál., sem samþ. var um þetta sama efni á Alþ. í fyrra. Ef hún sýnist ekki ætla að koma að fullu gagni, þá er það, sem fyrst þarf að gera, að fá Búnaðarfélag Íslands til að vinna. Það er því óþarfi að samþ. þetta mál til síðari umr. En fái n. það til athugunar, vil ég skora á n. að gera sér það ljóst, hve gersamlega rangar þær forsendur eru, sem þetta mál er byggt á, og hve gersamlega sú stefna er röng, sem haldið er fram í grg. þáltill.