16.12.1943
Sameinað þing: 45. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í D-deild Alþingistíðinda. (3467)

41. mál, nýbýlamyndun

Frsm. meiri hl. (Jón Sigurðsson):

Ég skal ekki þreyta menn á langri ræðu. Ég vil aðeins gera grein fyrir afstöðu meiri hluta allshn.

Eins og öllum þm. er kunnugt, var samþ. hér þál. í febr. síðastliðnum, er gekk í svipaða átt og þessi, sem nú er til umræðu. Eitt af því, sem þar var samþ., að rannsaka skyldi, var að athuga, hvar heppileg skilyrði væru fyrir byggðahverfum. Stjórn Búnaðarfélagsins var send þessi þál. til framkvæmda, og fól hún mþn., er kosin var á síðasta búnaðarþingi, að taka þetta til rannsóknar og gera till. í málinu.

Þessi till. fer mjög í sömu átt, en er þó frábrugðin að því leyti, að m. a. er það nýbýlastjórn, sem rannsókn þessa á að gera. Auk þess á hún að gera skýrslur um, hversu háttað er eignarrétti og umráðum á landi því, er hún telur vel fallið til nýbýlagerðar. Og loks er henni heimilað fé úr ríkissjóði til að standast kostnaðinn við þetta, en slík heimild fylgdi ekki í fyrri till.

Nú er það svo, að mþn. sú, er Búnaðarfélagið hefur skipað til að vinna að framkvæmd fyrri till. frá í febrúar, hefur mörgum fleiri verkefnum að sinna. Meiri hl. allshn. leit því svo á, enda þótt þessi mál séu nátengd, eins og ég hef sagt, að það hlyti að vera fremur greiði við málið að fela nýbýlastjórn að gera þessa sérstöku rannsókn og þó í fullu samráði við Búnaðarfélagið og mþn. þess. Þetta mundi verða málinu til stuðnings og mundi létta störfum af mþn. Búnaðarfélagsins. Við höfum því ekki séð ástæðu til að vera á móti þessari till., en leggjum til dálitla orðabreyt. á henni, svo að takast megi fullkomin samvinna milli nýbýlastj. og mþn. Búnaðarfélagsins. Með því að breyta þannig till. teljum við málinu betur borgið. Meiri hl. allshn. leggur því til, að till. verði samþ. með þeirri breyt., er í nál. hans greinir.