14.12.1943
Sameinað þing: 42. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í D-deild Alþingistíðinda. (3481)

143. mál, þjóðleikhúsið

Flm. (Barði Guðmundsson) :

Herra forseti. Þessi þáltill. á þskj. 305 er borin fram samkvæmt áskorun til Alþ. frá Félagi íslenzkra leikara, og með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa hana upp:

„Í samræmi við ályktun gerða á framhaldsfundi L. F. R. þann 3. okt. 1943 beinum vér þeirri áskorun til Alþingis, að það nú þegar skipi 5 manna milliþn., er leggi fyrir næsta Alþingi ákveðnar tillögur um stjórnarfyrirkomulag og rekstur þjóðleikhússins, og eigi Félag íslenzkra leikara tvo fulltrúa í þeirri nefnd, en Leikfélag Reykjavíkur einn“.

Samkv. þessari áskorun höfum við fjórir þm. borið fram till. á þskj. 305. Við höfum ekki séð ástæðu til að breyta öðru en því, að við leggjum til, að einn nm. sé tilnefndur af Bandalagi ísl. listamanna, og er það sjálfsagt, að einn fulltrúinn sé fyrir hönd rithöfunda. Einnig hefur við athugun málsins talizt hæfilegt, að n. sé skipuð 7 mönnum, og að 4 þeirra séu tilnefndir af hálfu þingflokkanna.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta nánar, en tel æskilegt, þar sem mjög er liðið á þingtímann, að hv. þm. gætu fallizt á að vísa málinu ekki til n. Það er í raun og veru svo einfalt, að það ætti ekki að þurfa að fara í n., enda gæti það orðið til þess, að það næði ekki afgreiðslu á þessu þingi, þar sem komið er að þinglokum.