13.12.1943
Neðri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í D-deild Alþingistíðinda. (3528)

156. mál, rannsóknarnefnd vegna eyðileggingar á kjöti og öðrum neyzluvörum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal reyna að vera fáorður. En það, sem gefur mér sérstakt tilefni til þess að standa upp, eru þær fullyrðingar hjá hv. flm., að Alþ. Íslendinga hafi gefið kjötverðlagsn. og SÍS eitthvert einkasöluleyfi á kjöti og að kjötverðlagsn. hafi það í hendi sinni að láta ónýta kjöt, ef of mikið sé af því á markaðinum, svo að það seljist ekki allt. — Kjötverðlagsn. hefur nú það hlutverk, eins og segir í 1. gr. l. um þá n., að greiða fyrir innanlandsverzlun með þessar afurðir. Og hvað gefa svo l. nefndinni heimild til að gera í þessu skyni? Þau gefa henni heimild til þess að gera aðallega þrennt. Í fyrsta lagi að veita slátrunarleyfi, þ. e. ráða því, hvar menn slátra á landinu og hve miklu hver einstakur aðili, sem slíkt leyfi fær. Og það hafa alla tíð af kjötverðlagsn. verið veitt slátrunarleyfi þannig lagað, að allir, sem slátruðu, áður en sú n. var til, hafa fengið leyfi til að slátra og alltaf fengið leyfi fyrir það mikilli tölu sláturfjár, að þeir gætu slátrað öllu fé, sem að þeim bærist. En n. getur bægt frá nýjum mönnum, sem vilja byrja á að slátra. Annað, sem hún getur gert, er, að hún getur lagt verðjöfnunargjald á kjöt af sláturfé, sem má vera allt að 10 aurar á kg. Og þessu fé má hún verja til að verðbæta kjöt, sem selt er á erlendum markaði, ef það selst fyrir minna verð en á innlendum markaði. Þetta er allt fjármagnið, sem sú n. hefur yfir að ráða til þessara hluta. Og í l. um þetta er svo fyrir mælt, að verði afgangur af þessu fé, þá skuli endurgreiða það til þeirra manna, sem hafa greitt það í réttu hlutfalli við það, sem þeir hafa greitt. Svo virðist hv. þm. Siglf. halda, að n. hafi einhvern óþrjótandi sjóð til þess að standa straum af því að eyðileggja kjöt, ef hún álítur of mikið af því vera á markaðinum.

Hið þriðja, sem kjötverðlagsn. á að gera, er að hlutast til um, að kjöt verði verkað þannig, að hæfilega mikið sé verkað með þessari og hinni aðferð miðað við markaðsmöguleika, svo að t. d. ekki sé of mikið saltkjöt framleitt eða meira en búast má við, að hægt sé að selja, eða freðkjöt, heldur sé verkað nokkurn veginn hlutfallslega með hverri aðferð eins og búast má við, að markaður sé fyrir kjötið.

Þetta er það, sem n. getur gert, og annað ekki. Svo á n. eftir ummælum hv. þm. Siglf. að hafa eitthvert vald til að verzla með kjöt. Ég veit ekki, í hverju það á að vera fólgið. Mér er það alveg gersamlega hulið. Allir þeir, sem slátruðu á landinu og verzluðu með kjöt hér, þegar kjötverðlagsn. var fyrst sett, þeir gera það enn, þó að tveimur kaupmönnum undanteknum. Er annar þeirra kominn undir græna torfu, en hinum var hætt að veita slátrunarleyfi, eftir að hann var farinn að slátra fyrst 17 kindum á ári og svo 6 kindum yfir árið. Þá þótti ekki ástæða til að láta hann hafa slátrunarleyfi lengur. Svo að það er hér ekki neitt í þá átt, að hér sé að ræða um einkaaðstöðu, hvorki hjá SÍS né öðrum, svo sem hv. þm. Siglf. vill vera láta. Og það er svo fjarlægt, að Alþ. hafi á nokkurn hátt gefið SÍS nokkra aðstöðu til nokkurrar einkasölu á kjöti, að allt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði um þetta, er alveg út í loftið sagt og annaðhvort sprottið af því, að hann veit ekki betur, — og hefði hann þó átt að fá vitneskju um það, áður en hann fór af stað með þessa fullyrðingu sína, — eða þá sagt á móti betri vitund, og það er sennilegra, þar sem hann er það sæmilega greindur, að hann hefði ekki þurft nema stuttan tíma til þess að átta sig á því, hvernig þessum málum er fyrir komið.

Eftir að hv. þm. Siglf. hefur hlustað á hv. þm. Ak. hér í hv. d. og heyrt hann segja, hvernig þetta kjöt var, sem dysjað var í Hafnarfjarðarhrauni, þá leyfir hann sér að segja í ræðu sinni nú, að þetta hafi verið gert alveg að þarflausu. Svo langt gengur óskammfeilni þessa manns, að nokkrum mínútum eftir, að hann heyrði ræðu hv. þm. Ak., yfirdýralæknis landsins, sem hefur yfirumsjón með kjötmati, hvað þetta snertir, og lagði fyrir að ónýta kjötið, segir hann, að kjöti þessu hafi verið fleygt að þarflausu. Á þessu sér maður nokkurn veginn, hve maðurinn er vandaður og hve hann hirðir mikið um, að það sé rétt, sem hann segir. Þarna er þó alveg tvímælalaust talað á móti betri vitund.

Þessir hv. flm. að þessari þáltill., sem þykjast vilja leggja sig í líma um það að afla réttra upplýsinga um það, hvað hér hafi orsakað skemmd í kjöti, sem dysjað var í Hafnarfjarðarhrauni, hafa ekki heldur látið sig dreyma um það, að reynt hefur verið að rannsaka það á undanförnum árum, hvað orsakaði skemmdir í saltkjöti, — því að mörgum sinnum er búið að láta menn fara út með kjötinu til þess að vita, hvað það er, sem kaupendur ytra hafa út á kjötið að setja, og reyna þannig að finna ástæðurnar til skemmda í kjöti, sem héðan hefur verið flutt út. Og hér voru skipaðir menn á sínum tíma, í annað skiptið í þrjú ár og í hitt skiptið í tvö ár, til þess að reyna að finna orsakir til þess, að kjöt, sem héðan væri flutt, skemmdist, og til þess að reyna að finna aðferð til þess að koma í veg fyrir slíkar skemmdir, sem hefur mjög tekizt. Og ég vil spyrja þessa hv. flm., hvort þeir láti sér detta í hug, að þingmannanefnd, sem skipuð væri eftir till. þessarar þáltill., hefði betri aðstöðu til að rannsaka það, af hverju t. d. súrnunarskemmdir koma fram í kjöti, heldur en efnafræðingar, sem við þetta hafa fengizt, bæði hér á landi og annars staðar. Mér þætti gaman að sjá þá þm., sem ætluðu að rannsaka það fullkomnar og betur en þessir efnafræðingar hafa gert, t. d. Gísli heitinn Guðmundsson. Og ef einhverjir menn eru, sem um sárt hafa að binda vegna þessara skemmda, — og það eru alltaf einhverjir, þegar verðmæti skemmast, og í þessu tilfelli þeir einstakir bændur, sem þetta áttu, og það eru bændur úti á landi, en ekki SÍS, — halda þá hv. flm., að það séu ekki fyrst og fremst þeir menn, sem áhuga hafi á að vita, hvaða orsakir hafa verið þarna til skemmdanna í kjötinu og hvaða aðferðir á að hafa til þess að koma í veg fyrir, að slíkt endurtaki sig? Og ég veit ekki betur en það hafi verið fyrir frumkvæði þessara manna, að fyrr og síðar hefur verið reynt að finna orsakir skemmda í kjöti og koma í veg fyrir kjötskemmdir. Og það hefur mjög heppnazt, þó að svona tækist til í þetta skipti. Og það er mjög eðlilegt, að það séu þeir. En í þessu sambandi talaði hv. þm. Siglf. um, að það væri Alþ. eitt, sem hefði aðstöðu til þess að láta rannsókn fara fram í þessu máli, og hana hefði Alþ. fyrir það að hafa gefið SÍS einhverja einkasöluaðstöðu um kjöt hér á landi, en það er vitanlega fjarstæða. Nei, það eru vitanlega menn, sem þetta kjöt eiga, sem allir, hver um sig og í sameiningu, reyna að finna orsakirnar að skemmdunum í kjötinu og koma í veg fyrir, að þær endurtaki sig. Og af því þarf hæstv. Alþ. ekki að skipta sér neitt. Það kemur ekki á nokkurn hátt við fjárhag ríkissjóðs, hvort þetta kjöt skemmist eða ekki, heldur mannanna, sem eiga það, sem því miður hafa orðið fyrir skaða og kannske tilfinnanlegum sumir þeirra. Ég veit ekki, hverjir hafa átt þetta kjöt sérstaklega, sem mest er nú talað um, að skemmzt hafi, þó að það væri á vegum Sambands ísl. samvinnufélaga, þegar það var hér. En það eru þeir fyrst og fremst, sem hafa ástæðu til þess að óska eftir, að komist sé að raun um, af hverju kjöt þetta hefur skemmzt, og það mega menn vita með vissu, að verður reynt. Það hefur ævinlega verið reynt í slíkum tilfellum og verður nú gert eins og áður. Stundum hefur ekkert hafzt upp úr þeim tilraunum, en stundum hafa orsakirnar fundizt, sem geta því miður verið fleiri en ein enda þótt skemmdirnar verði eins.

Ég held því, að þessi þáltill. sé í alla staði óþörf. Ef hins vegar ætti að samþ. hana, þá lít ég svo á, að það sé ýmislegt í till., sem þurfi frekari athugunar við og breyt., áður en þingið ætti að samþ. hana. Ég tel þess vegna alveg sjálfsagt, að hún fari til n. og það sé landbn., sem hún fari til. Sú n. hér í hæstv. d. á vitanlega að hafa landbúnaðarmál fyrst og fremst með höndum. Og hér eru það fyrst og fremst sauðfjáreigendur, sem þetta kjöt hafa átt, og á landbn. því að sjálfsögðu að fjalla um till. Ég skal í því sambandi benda á, að í síðari till., 2. liðnum, er rætt um, að rannsaka þurfi, hvernig á skemmdum standi og hverjir eigi sök á skemmdunum. Áður en ég mundi geta verið með því að samþ. till., mundi ég vilja vera búinn að setja mig inn í rannsóknir um hliðstæð dæmi skemmda í matvælum hér á landi og átta mig á, hvort hér muni vera þörf á einhverju sérstöku í þessu máli öðrum fremur. Þá þyrfti að orða till. betur og ekki eins almennt og gert er. Ég geri það því að ákveðinni till. minni, að umr. verði frestað og málinu vísað til landbn.