13.12.1943
Neðri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í D-deild Alþingistíðinda. (3532)

156. mál, rannsóknarnefnd vegna eyðileggingar á kjöti og öðrum neyzluvörum

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þetta mikið, enda er búið að hrekja þær staðhæfingar, sem fram koma í till. En ég ber hér fram rökstudda dagskrá og vil, með leyfi forseta, lesa hana upp:

„Þar sem rannsókn stendur yfir í máli því, er till. fjallar um, og vitað er, að sú rannsókn verður framkvæmd hlutlaust og á eðlilegan hátt, og Alþ. telur það ekki í sínum verkahring að skipa frekari rannsókn í málinu og álítur till. með öllu óþarfa, tekur deildin fyrir næsta mái á dagskrá“.

Enn fremur vildi ég víkja að orðum hv. þm. V.-Sk., er hann sagði, að líking væri með þessari till. og annarri, sem samþ. var hér í kvöld í mjólkurmálinu. Ég get ekki látið undir höfuð leggjast að leiðrétta þennan misskilning. Í þeirri till. var vísað til stjskr. viðvíkjandi rannsókn, auk þess sem þessar tvær till. eru um allt gagnólíkar, og mun það flestum ljóst. Þetta vildi ég einungis taka fram.