23.09.1943
Sameinað þing: 14. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í D-deild Alþingistíðinda. (3545)

38. mál, jarðborar til jarðhitarannsókna

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Þáltill. þessi hnígur í þá átt, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að láta kaupa fyrir næsta vor tvo jarðbora til jarðhitarannsókna í landinu. Rök þau, sem til þess hníga, að þessi þáltill. er borin fram, eru þau, að áhugi á hagnýtingu jarðhita fer nú mjög vaxandi í landinu. Hins vegar brestur nokkuð á það, að hægt sé að létta undir með landsmönnum, sem áhuga hafa á þessum efnum, til þess að gera þeim slíka hagnýtingu mögulega. Á undanförnum árum hefur rannsóknaráð ríkisins haft yfirumsjón þeirra verkfæra, sem notuð eru til rannsókna í þessum efnum, þ. e. a. s. jarðbora, sem oft þarf að nota við boranir eftir heitu vatni á ýmsum stöðum, þar sem jarðhiti er ekki augljós, og til að bora dýpra þar, sem vitað er um heitt vatn, til þess að fá heitara vatn. Nú hefur það verið þannig, að rannsóknaráði ríkisins, sem hefur haft með höndum umsjón þessara mála, hafa borizt miklu fleiri umsóknir um afnot þessara verkfæra en það hefur getað fullnægt. Allir þrír borarnir hafa verið uppteknir nú alllangan tíma, og þess vegna hefur ekki verið hægt að rannsaka jarðhita nema á tiltölulega fáum stöðum af fjölmörgum, sem umsóknir hafa borizt um notkun þeirra á. Hér er því lagt til, að hæstv. Alþ. heimili ríkisstj. að láta kaupa tvo jarðbora. En samkvæmt upplýsingum, sem við flm. till. höfum fengið, þá eru líkur til þess, að tveir jarðborar í viðbót nægi til þess, að hægt verði nokkurn veginn að fullnægja eftirspurninni eftir þessum verkfærum.

Ég vil drepa á það, að það er skoðun flm. þáltill., að til þess beri allmikla nauðsyn að létta undir með almenningi í landinu til þess að skapa sér þau þægindi, sem fylgja jarðhita, þar sem hann er hagnýttur. Áhugi almennings hefur farið vaxandi í þessum efnum, og hefur það fyrst og fremst stafað af því, í hversu stórum stíl hefur verið farið af stað hér í Reykjavík með notkun jarðhitans, þar sem hitaveitan er. Það hefur orðið til þess, að aðrir kaupstaðir og kauptún og sveitabýli líka hafa hugsað sér að nota sér jarðhita. Nú er enn fremur jarðhitinn tekinn í þágu íþróttamálanna, og nokkuð hefur verið hafizt handa um að nota jarðhita til þess að auka ræktun með því að skapa skilyrði fyrir ræktun þeirra ávaxta og jurta, sem að öðrum kosti væri ekki auðið að rækta hér á landi. Og það er trú okkar flm. þáltill., að með aukinni notkun jarðhitans megi skapa mjög aukna fjölbreytni í landbúnaðarframleiðslu. En til slíkrar fjölbreytni ber brýna nauðsyn.

Ég mun svo ekki fjölyrða mikið um þetta. Ég legg á það ríka áherzlu, að að þessu máli verði snúið sér sem allra fyrst. Ég fagna því, að eftir að þessi þáltill. okkar var fram borin, hefur komið fram frv. um breyt. á l. um jarðhita, þar sem einnig er lagt til, að lagt verði út á þá braut að styðja menn í ríkari mæli en áður til þess að hagnýta sér þessi náttúruauðæfi. Og í grg. þessarar þáltill. er bent á það, að eðlilegt sé, að hið opinbera, sveitar- og bæjarfélög, taki þátt í þeim rannsóknum og undirbúningi, sem nauðsynlegur er, til þess að almenningur í landinu geti haft jarðhitans, sem til er í landinu, full not.

Varðandi kostnað við þessi kaup vil ég taka fram, að samkvæmt upplýsingum frá rannsóknaráði ríkisins munu jarðborar af hentugri gerð til þessara borana, sem hér er um að ræða, ekki vera mjög dýrir. Sá jarðbor, sem nýjastur er af þeim borum, sem rannsóknaráðið hefur hér ráð á, kostaði aðeins 25 þús. kr., og var hann þó keyptur í hinni mestu dýrtíð, sem yfir landið hefur komið.

Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að þáltill. þessari verði að umr. lokinni vísað til síðari umr. og hv. fjvn.