15.10.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í D-deild Alþingistíðinda. (3559)

72. mál, bygging ljós-, hljóð- og radiovita á Seley við Reyðarfjörð og hljóðvita við Berufjörð

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins við þessa fyrri umr. benda á það nýmæli, sem kemur fram í þessari þáltill., svo að hv. fjvn. geti tekið till. til athugunar einnig frá því sjónarmiði.

Það hefur verið venja, að atvmrh. hefur ákveðið, hvernig því fé skuli varið, sem veitt er til vita á ári hverju. Með þessari till. er hins vegar farið inn á þá braut, að Alþ. skuli taka þennan ákvörðunarrétt í sínar hendur. Ég álít, að þetta sé mjög óheppileg braut. Við ákvarðanir sínar um þessi mál hefur atvmrh. jafnan haft sér til ráðleggingar nefnd, sem er skipuð forseta Fiskifélags Íslands, formanni Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og vitamálastjóra, og það hefur undantekningarlaust verið farið eftir till. þessarar n., að því er ég bezt veit. Ég tel, að með þessu móti sé þessum málum svo vel komið sem verða má og að tryggt sé, að fénu, sem veitt er, verði varið til þess, sem mest þörf er á.

Þegar vital. voru sett árið 1933, þá voru teknir upp í þau yfir 60 vitar, sem byggja þurfti. Á þessum 10 árum, sem síðan eru liðin, hefur svo um það bil 1/3 hluti þessara vita verið byggður, en þá eru enn eftir 3/4 hlutar þeirra vita, sem áætlaðir voru. Ég tel, að á meðan þessir vitar eru ekki reistir, þá sé varla rétt að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi, a. m. k. ekki á meðan ekki koma fram kvartanir um, að þessari n. séu mislagðar hendur í störfum sínum. En ég veit ekki til þess, að enn hafi komið fram kvartanir um, að fénu hafi ekki verið varið rétt. Ég veit, að sjómenn hafa kvartað yfir því, að féð hafi verið lítið, en þeir hafa ekki kvartað yfir því, hvernig því hefur verið ráðstafað. Ég tel einmitt mesta tryggingu fyrir því, að fénu verði rétt varið, með því að haldið verði því fyrirkomulagi, sem nú er, og ég tel ekki hyggilegt af Alþ. að fara að blanda sér inn í þau mál, enda hefur það nú þegar komið í ljós, að tveir aðrir hv. þm. hafa þegar borið fram sem viðaukatill. og í frv.formi kröfur um sérstaka vita. Og ég veit, að þannig heldur áfram, meðan nokkur viti er eftir óreistur. Ég skal svo ekki orðlengja þetta mikið, en ég vil taka það fram, að síðari vitinn, sem um getur í þessari þáltill., er ekki í vital., og hefur því enn ekki farið fram rannsókn og áætlun um byggingu hans. Og það er vafasamt, að Alþ. samþ. að koma honum upp, meðan rannsókn hefur ekki farið fram.