15.10.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í D-deild Alþingistíðinda. (3560)

72. mál, bygging ljós-, hljóð- og radiovita á Seley við Reyðarfjörð og hljóðvita við Berufjörð

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég á brtt. á þskj. 112 við þessa þáltill. á þskj. 91. Brtt. þessi felur raunverulega í sér viðauka um það, að tveir nýir vitar verði teknir inn í og að fjárframlagið hækki af þeim orsökum um ¼ millj. kr.

Það mun engum blandast hugur um, að það beri að hraða vitabyggingum sem mest. Hitt getur verið meira álitamál, hvaða vita beri að byggja fyrst. En frá leikmannssjónarmiði virðist liggja mest á því að byggja vita þar, sem flest ströndin verða eða skipum hlekkist mest á. Suðurströnd landsins er að mestu hafnlaus, og þar er útfiri mikið, enda er það mála sannast, að hvergi eru tíðari skipströnd en einmitt þar og þá mest í Skaftafellssýslum. Það er líka svo, að hver, sem fer þar um ströndina, sér með stuttu millibili hálfsandorpin skipsflök, sem eru órækt vitni um það, hvílík hætta er þar á ferðum. Nú er aðeins viti þarna á Ingólfshöfða og annar við Hornafjörð, en þar á milli er um 100 km. hafnlaus strönd. Vital. gera ráð fyrir einum vita þarna á milli, í Hestgerði, nánar tiltekið á Hálsum, og fer ég nú fram á það í brtt. minni, að hann verði tekinn upp í þessa þáltill.

Hinn vitinn, sem ég fer fram á, er við Eystra-Horn, en hann mundi verða til mjög mikils hægðarauka fyrir sjómenn, sem fara þessa leið. Ég ætla ekki að blanda mér inn í þessi mál að öðru leyti, en ef Alþ. fer að taka þá stefnu, sem þessi þáltill. markar og er ný, eins og hv. þm. Hafnf. benti á, þá vænti ég þess, að það sjái sér fært að taka upp í þáltill. þessa vita, sem ég hef lagt til með brtt. minni.