15.10.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í D-deild Alþingistíðinda. (3574)

76. mál, símakerfi í Barðastrandarsýslu

Flm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef komið hér fram með þáltill. um, að ríkisstj. láti hraða sem mest endurbótum á símakerfi Barðastrandarsýslu. Þeir, sem hafa lesið morgunblöðin í dag, hafa sannfærzt um, að nú er búið að koma á endurbótum á símakerfinu kringum landið, þannig að nú er hægt að tala við menn úti á landi eins og þeir væru hér í Reykjavík. En menn hafa ef til vill ekki gert sér það ljóst, að Barðastrandarsýsla og yfirleitt allur Vestfjarðakjálkinn hefur orðið afskiptur um þessi gæði. Það er nú raunar ekkert nýtt, að þetta hérað verði olnbogabarn, þegar um endurbætur eða nýjar framkvæmdir er að ræða.

Ef litið er á málið frá þeirri hlið, sem snýr að viðskiptalífinu, er ástandið þannig hjá ýmsum fyrirtækjum, t. d. á Patreksfirði, sem þurfa að standa í stöðugu símasambandi við stofnanir hér í bæ vegna viðskipta sinna, að þau þurfa oft að eyða heilum eða mörgum dögum í að ná sambandi við þessar stofnanir, eingöngu vegna þess, hversu símakerfið er slitið og langt aftur úr.

Einnig ber að taka tillit til þeirra manna, sem oft verða að fara klukkustunda ferðir til næstu símstöðvar til þess að fá samband við önnur héruð. Þá er ástandið þar oft og einatt þannig, að þeir verða að bíða í nokkrar klukkustundir eða ná ef til vill engu sambandi vegna ástandsins á símakerfinu og þurfa þannig oft að endurtaka þetta, áður en þeir hafa getað lokið erindi sínu. Langoftast verður fólk að fá þessi samtöl með hraði, sem auðvitað margfaldar kostnaðinn.

Ég hef átt ýtarlegt samtal um þetta við landssímastjóra, og hefur hann fyrir mín tilmæli látið gera skipulagsteikningu af þeim endurbótum, sem hann telur nauðsynlegastar, og mundi það flýta mjög fyrir þessum endurbótum, ef sú till. yrði samþykkt, sem hér er borin fram. Hann hefur hugsað sér þetta þannig, að á Patreksfirði yrði komið upp fjöldasambandi, en hinum smærri stöðvum, sem svo mjög eyðileggja langsamtölin, verði breytt í byggðasíma, og vænti ég þess, að hv. þm. veiti þessu máli stuðning, svo að hægt verði að framkvæma þessar endurbætur eins fljótt og unnt er. Ég vil aðeins geta þess, að mér hafa borizt sterkar áskoranir frá ýmsum áhugamönnum úr sýslunni og eins frá fjölmennum fundum, sem haldnir hafa verið þar um þetta mái. Ég mun ekki lesa upp þessar áskoranir hér, en vil aðeins endurtaka, að ég hef verið beðinn að beita mér fyrir því, að skjótar og góðar endurbætur yrðu gerðar í þessu máli. Mér finnst ekki mikil sanngirni í því, að fyrir þá einu sök, að sá aðili, sem á að sjá um þetta, nefnilega Landssími Íslands, hefur ekki haft tök á því að hafa símalínu í sæmilegu ástandi, verði símanotendur á þessu svæði að greiða þrefalt gjald fyrir símtöl, því að varla nokkurt samtal á þessum slóðum er mögulegt nema sem hraðsamtal. Á þennan hátt fær landssíminn miklu meira inn fyrir símann, og væri því hægt að láta það fé ganga til að gera þessar endurbætur.

Að lokinni umræðu vil ég óska þess, að málinu verði vísað til fjvn.