15.10.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í D-deild Alþingistíðinda. (3583)

83. mál, ljósviti á Æðey og á Sléttueyri

Flm. (Sigurður Bjarnason) :

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þessa þáltill. og það því fremur sem hér í dag hafa farið fram umr. um till. nokkuð svipaðs eðlis og sú, sem hér liggur fyrir. Þessi þáltill. er flutt fyrst og fremst til þess að leggja áherzlu á þá brýnu nauðsyn, sem fyrir hendi er, til þess að ljósvitar verði byggðir á þeim stöðum, sem gert er ráð fyrir í vitalögunum, þ. e. a. s. á Æðey við Ísafjarðardjúp og Sléttueyri í Jökulfjörðum. Ég ætla ekki að þessu sinni að fara út í að rekja þá staðarlegu nauðsyn, sem hér er fyrir hendi. En í sambandi við ummæli hv. þm. Hafnf., sem um þessi mál ræddi hér og auðvitað af mikilli þekkingu, þar sem það er starf hans að fjalla sérstaklega um þessi mál, vildi ég segja það, að ég vildi sérstaklega taka undir þau ummæli hans, sem komu fram hjá hv. 6. landsk. þm. einnig, að til vitabygginga yfirleitt er alltof lítið fé veitt. Og ég lít svo á, að þær umr., sem hafa farið fram hér, sem hv. þm. Hafnf. telur nokkuð að ófyrirsynju, þær séu ekki að ófyrirsynju fluttar, ef flutningur þeirra kann að verða til þess, að nokkru meira fé verði veitt til framkvæmda í þessum efnum árlega hér eftir en hingað til hefur verið gert. Það er vitað mál, að fjöldi vita á ströndum landsins bíður byggingar og að sá dráttur, sem orðið hefur á byggingu þeirra, hefur valdið sjósókn og útræði í landinu mjög miklu óhagræði. Og það er á grundvelli þessarar staðreyndar, sem þessi þáltill. er flutt og aðrar till., sem fluttar eru á Alþ. nú um þessi efni.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Hafnf. benti á, að það er nú nefnd starfandi að þessum efnum, sem fyrst og fremst ber að snúa sér til með beiðnir um það, að ákveðnir vitar verði byggðir. En það er þó fyrst og fremst Alþingis að ákveða, hve mikið fé skuli veitt þessari n. til þess að spila úr. Og því er það, að það veltur í raun og veru um framkvæmdir í þessum efnum að öllu leyti á því, hvernig hæstv. Alþ. snýst við þeim.

Ég vænti sem sagt, að þessar till., þar sem bent er á brýna nauðsyn til framkvæmda vitabygginga á þessum stöðum, megi verða til þess, að meira fé verði veitt til vitabygginga og þar með verði gert kleift, að vitar verði byggðir á þeim stöðum, sem ræðir um í þessari þáltill., og enn fremur þar, sem hina brýnustu nauðsyn ber til slíkra framkvæmda á öðrum stöðum á landinu.

Ég hygg svo rétt vera, að þessari þáltill. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn.