19.10.1943
Sameinað þing: 21. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í D-deild Alþingistíðinda. (3603)

98. mál, neyzlumjólkurskortur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að dæma mikið um hinar lítt þinglegu umræður, sem hér hafa farið fram um þetta mál milli hv. þm. V.-Sk. og hv. þm. Hafnf., en úr því að lagt hefur verið til, að málinu verði vísað til allshn., langar mig til að fá skýringu frá hv. þm. V.-Sk. á allri framkomu hans nú í þessu máli. Hann notar mikið af tíma sínum til þess að útskýra fyrir þingheimi, hversu óskynsamlegt það sé að hlutast til um að stöðva sölu á mjólk til setuliðsins. Hins vegar flytur hann sjálfur brtt., sem fer fram á að stöðva sölu á mjólk til setuliðsins. Mér er því óskiljanleg framkoma hv. þm. í þessu máli, þar sem vitað er, að verði brtt. á þskj. 175 samþ., og ég geri ráð fyrir, að hann greiði sjálfur atkv. með henni, þá er þar með gerð tilraun til þess að stöðva sölu á mjólk til setuliðsins, og þar með er hafin þessi ofsókn, sem hann var að ræða um, á hendur setuliðinu. Mér finnst því alls ekki sæmandi fyrir þm. að eyða tíma þingsins í að bera fram mál, sem ekki liggur meiri alvara á bak við en kemur fram hjá hv. þm. V.-Sk. og alls ekki kemur kjarna málsins við.

Hins vegar þótti mér vænt um að heyra yfirlýsingu frá hv. þm. Hafnf. um uppbæturnar til bænda. Ég man ekki betur en grein hafi komið í Alþýðublaðinu, þar sem vísað var til ummæla hv. þm. S.-Þ. um, að 2–14 þm. hefðu verið handjárnaðir, til þess að lagafyrirmæli yrðu ekki brotin, og nú hefur hann að gefnu tilefni lýst yfir, að hér væri um l. að ræða, sem ekki væri hægt að ganga fram hjá. Væri því óskandi, að hann héldi fast við skoðun sína, en haldi ekki allt öðru fram hér á Alþ.