19.10.1943
Sameinað þing: 21. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í D-deild Alþingistíðinda. (3605)

98. mál, neyzlumjólkurskortur

Bjarni Benediktsson:

Ég hef nú ekki blandað mér í umr. um mjólkurmálið og vandræði, sem í bænum eru af þeim sökum, að mjólk skortir þar nokkuð, enda hafa þær umr. að mestu farið fram í hv. Nd., þar sem ég hef ekki átt sæti. Hins vegar get ég ekki látið þær umr., sem nú hafa farið fram, þegjandi fram hjá mér fara, sérstaklega vegna þess, að nokkuð er vikið að bæjarstjórn Reykjavíkur í brtt., sem hv. þm. V.-Sk. hefur flutt, og einnig vegna ummæla hans hér áðan í ræðu varðandi rafmagnsskort og vatnsskort hér í Reykjavík.

Um mjólkurmálið almennt vil ég þó segja það, að í sjálfu sér er höfuðatriði þess máls það, að yfirleitt komi næg og góð mjólk til bæjarins. Ég hygg nú, að það sé ekki rétt að leggja á það höfuðáherzlu, að mjólkin, sem komi til bæjarins nú, sé yfirleitt ekki næg. Og ég geri ráð fyrir því, að það kunni að vera erfitt að koma í veg fyrir, að einhver mjólkurskortur kynni að vera hér einhvern stuttan tíma á hverju ári og þá sé aðalatriðið það, hvernig við honum sé brugðizt og hver úrræði séu fundin til þess að gera hann sem skaðminnstan og þannig, að hann valdi sem minnstum óþægindum og tjóni. Hitt er langsamlega aðalatriði þessa máls, sem að vísu felst ekki í þessari till., en ég vildi þó drepa á í sambandi við hana, vegna þess að mér hefur ekki gefizt kostur á að taka þátt í þeim löngu og almennu umr., sem um mjólkurmálin hafa orðið í hv. Nd., að uppi eru rökstuddar kærur um það, að mjólkin, sem til bæjarins er flutt, sé yfirleitt ekki nógu holl. Koma þar þá aðallega til greina þrjú atriði: Í fyrsta lagi, að mjólkin sé ekki nógu góð, þegar hún kemur í mjólkurstöðina, í öðru lagi, að meðferðin á henni í mjólkurstöðinni sé ekki nógu góð, og í þriðja lagi, að eftir að hún fer úr mjólkurstöðinni og þangað til hún er komin í hendur neytenda, sé ekki nógu heilsusamlega með hana farið. Og ég verð að segja, að þær till., sem enn hafa komið fram á Alþ. varðandi þessi atriði, hafa mér ekki sýnzt einhlítar til þess að ráða bót á neinum af þeim göllum á meðferð mjólkurinnar einhvers staðar á leið hennar frá framleiðanda til neytanda, — því að það er alviðurkennt, að mjólkin sé ekki nógu góð, þegar hún kemur til neytendanna. Og ég verð að taka fram, að mér sýnist frv. það, sem fram hefur verið borið í hv. Nd., án þess að ég ætli á nokkurn veg að blanda mér í meðferð þess, muni, þótt samþ. verði, mjög lítil áhrif hafa á gæði mjólkurinnar, þó að bæjarstjórn Reykjavíkur yrði eigandi mjólkurstöðvarinnar, sem vafalaust má rökstyðja með sterkum rökum, eins og skipun afurðamálanna nú er. Ég held, að það mundi lítil áhrif hafa til þess út af fyrir sig að auka gæði mjólkurinnar. Enn þá eru ekki komnar fram á þingi neinar beinar till. til umbóta á því atriði, sem mestu máli skiptir í þessu, sem sagt, að mjólkin sé nógu góð. En till. þær, sem fram hafa verið bornar í hv. Nd., stefna þarna alveg í rétta átt. Það þarf að fara fram ýtarleg rannsókn á þessu máli, áður en beinar till. eru gerðar og ákvarðanir eru teknar um það, hvað gera skuli.

Nú getur hv. þm. V.-Sk. vafalaust með réttu bent á það, að það sé með byggingu hinnar nýju mjólkurstöðvar verið að gera mjög mikið átak til þess að geta fært í betra horf mjólkurvinnsluna, sem hafi ekki verið hægt að hafa í æskilegasta horfi í gömlu mjólkurstöðinni vegna þrengsla. Og um það veit ég, að allir heilbrigðir menn eru sammála, að höfuðhættan nú sé í þessum málum sú, að flokkun á mjólkinni sé ekki nógu góð, þegar hún kemur í mjólkurstöðina, það sé höfuðgallinn.

Ég vil alls ekki segja, að þetta mál sé einfalt til úrlausnar. Og það er ljóst, að það verður þeim mun erfiðara að ráða við þetta og tryggja gæði mjólkurinnar eftir því sem mjólkurverðlagssvæðið er stærra. Og það verður meiri hætta á, að mjólkin verði ekki nógu góð, ef krefjast á svo mikillar framleiðslu mjólkur fyrir Reykjavíkurmarkaðinn, að aldrei geti um fárra daga bil komið til nokkurs mjólkurskorts hér í bænum.

Af því að þetta liggur svona fyrir og málið er flókið og vandasamt, virðist mér réttlátt eðli málsins samkvæmt —, að frekari rannsókn og frekari greinargerð liggi fyrir hv. þm. um þessi mál en enn þá hefur fengizt, og það ekki sízt vegna þess, að því verður alls ekki á móti borið, að það er rétt, sem hv. þm. Hafnf. hélt hér fram, að yfirleitt þegar neytendur hafa borið fram aðfinningar, hvort sem þær hafa verið réttmætar eða óréttmætar, varðandi mjólkurskipulagið, — sem ég veit, að hv. þm. V.-Sk. viðurkennir með sjálfum sér, að í mörgu hlýtur að vera ábótavant —, þá hafa þeir ekki fengið annað en illyrði fyrir sína frekju hjá hv. þm. V.-Sk., formanni mjólkursölun., og félagsbræðrum hans. Þessum hv. þm. rann í skap hér áðan, sem að vissu leyti má honum til vorkunnar virða, og var að bera það af sér, að hann væri skömmöttur og illur í máli. En ég hygg, að ræða hans og ummæli önnur, er fallið hafa í sambandi við mjólkurmálið, séu of talandi vottur þess gagnstæða, þó að hann lýsi yfir því, að hann sé allra manna prúðastur og taki allra manna vingjarnlegast öllum ásökunum. Ágallarnir, sem verið hafa á sambúð mjólkursölun. við viðskiptamenn sína, borgarana hér í bænum, komu óneitanlega ákaflega glöggt fram í þessu atriði varðandi neyzlumjólkurskortinn hér í bænum undanfarnar vikur. En eins og ég hef sagt, þá er það ákaflega skiljanlegt, að mér finnst, að komið geti til þess stundum, að mjólkurskortur verði í bænum. Aðalatriðið er þá, hvernig hægt er að koma því svo fyrir, að hann verði sem allra minnst tilfinnanlegur. Er ekki rétt af þeim stjórnarvöldum, sem til þess hafa völd og aðstöðu, að fylgjast með, og er ekki rétt, að forráðamenn mjólkursamsölunnar og hæstv. ríkisstj. hafi samtök um að fyrirskipa einhverja skömmtun í bili á mjólkinni eða aðrar ráðstafanir um meðferð mjólkurinnar, sem gerðu það að verkum, að börn, gamalmenni og sjúklingar séu tryggir með mjólk, hvað sem um aðra væri? Þetta fyndist mér vera að horfast í augu við staðreyndirnar og reyna að bæta úr. En því verður ekki á móti mælt, að í stað þess að vera með þessari lausn málsins umhverfist hv. þm. V.-Sk. hér og tekur það ráð, sem sekir menn eru vanir að taka, þegar þeir hafa eitthvað óhreint í pokahorninu, að hann vill ekki láta tala um það mál, sem fyrir liggur og talað er um að ráða bót á, heldur fer hann og félagsbræður hans að tala um eitthvað allt annað, snúa máli sínu að einhverju öðru og gera árásir á eitthvað annað til þess að forðast að tala um það mál, sem fyrir liggur, og reyna að finna úrlausn á því. Ég býst við, að borgurum Reykjavíkur þætti skrítið, ef ég yrði fyrir ásökunum í bæjarstjórn Reykjavíkur fyrir vatnsleysi og rafmagnsleysi og ég sneri þá talinu og málsmeðferðinni upp í það að segja: Talið þið við hann séra Sveinbjörn um mjólkurmálið. — Ég geri ráð fyrir, að það þætti skrítin og óboðleg meðferð á máli í bæjarstjórn Reykjavíkur, þó að þessi gamalreyndi maður og að ýmsu leyti ágæti maður telji Alþingi Íslendinga þessa málsmeðferð og málsvörn sæmilega.

Nú getur vel verið, að það megi ásaka bæjarstjórn Reykjavíkur og mig sem borgarstjóra fyrir það að hafa selt setuliðinu rafmagn og vatn eða látið þeim þetta í té, en það er bara allt annað mál. Við skulum tala um mjólkurskortinn í bili og reyna að finna sanngjarna lausn þess máls og taka mig svo fyrir á eftir. Það skal ekki standa á öllum upplýsingum og gögnum um það. En þó vil ég vegna þess, sem hér hefur komið fram í því efni, upplýsa, að það er algerlega rangt, að rafmagnsskorturinn sé því að kenna, að setuliðinu sé selt rafmagn. En það hefur verið gefið í skyn hér, að svo muni vera, og það á þann hátt gefið í skyn, sem ég tel skaðsamlegt, bæði fyrir bæjaryfirvöld Reykjavíkur og fyrir setuliðið og sambúð Íslendinga og setuliðsins yfirleitt. Og þær tölur og gögn, sem um þetta liggja fyrir, sýna, að svo er alls ekki, að rafmagnsskorturinn sé þessu að kenna. Það hefur einmitt verið stuðlað að því og haldið fast við það, að setuliðið fengi ekki rafmagn á þeim tímum, þegar rafmagnsleysið hefur verið tilfinnanlegast og valdið helzt tjóni, sem sagt á tímanum fyrir hádegi, þ. e. rafmagn til suðu hefur setuliðið alls ekki fengið. Og það er svo fjarri því, að setuliðið hafi fengið nokkuð sérstaklega góð kjör varðandi rafmagnsnotkun hjá bæjarstjórninni, að setuliðinu hefur aðeins verið seld umframorkan og það við því verði, að t. d. í janúar 1943 varð setuliðið að borga fyrir sína notkun 36,1 eyri fyrir það sama, sem bæjarbúar urðu að borga fyrir notkun sína 11,9 aura á kwst. (SvbH: Það er gróði). Já, það má segja það, en gróði, sem kemur aðeins af því, að setuliðið hefur þarna aðeins fengið umframorkuna og ekki annað.

Nú er ég ekki að halla á hv. þm. V.-Sk. fyrir það, að mjólkursamsalan hefur selt setuliðinu mjólk. Hann sannfærði mig með ummælum sínum áðan um, að það hefði verið ómögulegt annað en selja því mjólk að vissu marki. En ef hann hefur góðan málstað og að svo miklu leyti sem hann hefur góðan málstað, þá spillir það fyrir þeim góða málstað og vekur tortryggni að blanda í umr. um þetta mál allt öðrum málum og þessu máli óskyldum. En hinu verður ekki neitað, þó að játað verði, að það séu að vissu leyti ómaklegar ásakanir, sem komið hafa fram á mjólkursamsöluna fyrir að selja setuliðinu mjólk, og óhyggilegt sé að taka slíkt mál upp eins og gert hefur verið jafnfyrirvaralaust, að þá er það — eins og hv. þm. Hafnf. játaði áðan, að það hefði aldrei verið ætlun sín að stöðva mjólkursölu til spítala setuliðsins, — nú spurningin og það, sem allir hefðu getað fallizt á, að setuliðið hefði orðið að lúta sams konar takmörkunum og landsmenn sjálfir hafa orðið að lúta. Ef mjólkuryfirvöldin hefðu tekið það ráð að setja einhverjar slíkar takmarkanir á, hefði það verið æskilegt, í stað þess að svara yfirvöldunum skætingi og illyrðum eða taka upp hið gamalreynda ráð hins seka manns að tala um allt annað og vekja á sér ýmiss konar grunsemdir, sem að sjálfsögðu eru með öllu tilefnislausar. Og því verður alls ekki neitað, að yfirlýsingar hæstv. utanrmrh. á dögunum stangast við þær upplýsingar, sem hv. þm. V.-Sk. gefur til kynna. Og maður satt að segja getur ekki skilið, hvers vegna ekki geta legið fyrir alveg glögg og greinagóð svör um jafnsaklausan hlut og þó að setuliðið, sem hér dvelst, fái keypta mjólk, sérstaklega ef það eru sjúkir menn, sem hún er keypt fyrir. En þegar um mjólkurmálið er talað, er því snúið upp í illindi og skammir, sem menn kasta hverjir á aðra, og með þeim blæ og frásagnarhætti sem hér væri eitthvað illt á ferð í meðferð mjólkurmálanna, en ég get þó trúað hv. þm. V.-Sk. til að ábyrgjast okkur, að ekki sé. En hví hagar hann sér þá svona?

Ég skal nú ekki fjölyrða um þetta mái. En höfuðatriði málsins er vitanlega það, að tryggt verði betur en hingað til hafa fundizt ráð til, að það verði góð mjólk, sem fæst til bæjarins. Það er þegar búið að tryggja það, miðað við alla venjulega tíma, að mestan hluta ársins fæst nóg mjólk til bæjarins, og það ætti að vera hægt á tiltölulegan auðveldan hátt að koma í veg fyrir, að slík mistök eigi sér stað í þeim efnum eins og í haust. Hitt er aðalatriðið, að mjólkin verði nógu góð, og bezta og öruggasta ráðið til þess að tryggja það er till. hv. þm. Snæf. (GTh) um að skipa þessa rannsóknarnefnd, sem hann gerir till. um og hv. þm. V. Sk. hefur sannast sagt — með sinni dularfullu framkomu hér, sígefandi í skyn, að hann þurfi eitthvað að fela, með því að hann reynir að beina málinu inn á annað svið —, gefið þinginu meiri ástæðu til að samþ. en ella hefði verið.

Loks vildi ég segja það, út af ummælum hv. þm. Hafnf. í sambandi við annað mál, ef svo má segja, bótagreiðslurnar til bænda, að ég skildi það, sem hann sagði hér áðan, á sama veg og hv. þm. Barð. hélt hér fram, að hann áliti skylt samkv. l. að greiða þessar uppbætur á útfluttar afurðir einnig úr ríkissjóði. Hann (þm. Hafnf.) taldi það að vísu ill l. og heimskuleg, en ég skildi hann svo, að hann teldi þetta vera gildandi l. Enda er það alveg ljóst, að hv. landbúnaðarvísitölun. hefur skilið það svo, að þetta væru gildandi l. Hún segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í dýrtíðarlögunum er svo fyrir mælt, að taka skuli tillit til þess verðs, sem fæst fyrir útfluttar landbúnaðarafurðir. Mun hér einkum vera átt við ull og gærur, sem að mestu leyti fara til útlanda. En nú er kunnugt um, hvaða verð fæst fyrir ull og gærur, sem til falla á því tímabili, sem hér er um að ræða. Verður því að setja áætlað verð á þessar vörur, og hefur nefndin gert það með hliðsjón af því verði, sem þessar vörur hafa verið seldar fyrir síðast. Ef verðið verður annað en hér er áætlað, þá ætti það að breyta verðlagi hinna afurðanna, en það getur varla komið til greina fyrr en við næstu vísitölu á eftir. Ef verðið verður lægra en hér er áætlað, þyrfti það samt ekki að raska verði annarra afurða, ef mismunurinn yrði greiddur úr ríkissjóði“. (EmJ: Það slær engu föstu). Jú, því að í nál. segir, að útreikningur n. á því verði, sem bændum er ætlað, byggist á því, að þeir fái það verð fyrir hinar útfluttu afurðir, sem þeim er ætlað. Ef þeir fái lægra verð, þá verði annaðhvort að hækka verð á innlendu afurðunum eða borga mismuninn úr ríkissjóði. Þetta er svo skýrt sagt í nál. sex manna n. sem hægt er um nokkurn hlut. Enda get ég ekki skilið dýrtíðarl. frá því í vor á annan veg en mér skildist hv. þm. Hafnf. skilja þau áðan, að þau slægju þessu föstu. En hitt er annað mál, að ég er honum sammála um það, að þetta sé óhæf regla í framkvæmd og fái ekki staðizt. En þetta er í l. í bili, og í bili erum við það bundnir, svo ég get ekki fallizt á, að hann hafi haft ástæðu til að skýra ummæli sín á annan veg og óákveðnari, eins og hann gerði í seinni ræðu sinni.