19.10.1943
Sameinað þing: 21. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í D-deild Alþingistíðinda. (3606)

98. mál, neyzlumjólkurskortur

Haraldur Guðmundsson:

Ég skal ekki tefja umr. mikið. En það, sem olli því, að ég kvaddi mér hljóðs, voru ummæli hjá hv. þm. V.-Sk. um það, að kært hefði verið yfir, ég held fjórum búðum, þar sem Alþýðubrauðgerðin hefði mjólkursölu. Ég verð að taka þessar upplýsingar hv. þm. með alveg sömu varúð og fleiri fullyrðingar hans. Ég hef reynt að grennslast um það, hvernig í þessu lægi, en er ekki búinn að fá enn þá í hendurnar fullkomnar upplýsingar um þetta. En svo mikið veit ég þó, að mjög mikið er málum blandað hjá hv. þm. V.-Sk. í þessu efni og fjarri því, að rétt sé frá skýrt. Ég vildi mega biðja hv. þm. að taka á þessu stigi málsins þessa fullyrðingu hv. þm. með sömu varúð og aðrar fullyrðingar hans. Meira fer ég ekki fram á.

Hv. þm. V.-Sk. segir, að við séum vondir menn og okkur sé ákaflega illa við sig og við séum gramir og ósanngjarnir í sinn garð, — þessa staka guðsmanns, sem á ekki nema gott skilið, — og hann verði fyrir þessu á öllum fundum og í öllum blöðum, hann geti ekki sýnt sig án þess að verða fyrir aðkasti. Og ekki komi honum til hugar, að nokkur ástæða gæti verið til þessarar megnu andúðar. — Ég skal sleppa því að tala um þennan kafla ræðu hans, sem þó er eftirtektarverður og væri gaman að leggja út af. En meginatriðið í þessu sambandi er, að þessi hv. þm. telur, að ef sú þáltill., sem hér liggur fyrir, yrði samþ., þá væri það ofsókn á bændur og spillti framtíðarmarkaði þeirra fyrir afurðir sínar. En eftir að ég hafði heyrt þessa fullyrðingu hv. þm. V.-Sk., virðist mér undarlegt, að á þskj. 175 flytur þessi sami hv. þm. till., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hlutast til um, að sala á mjólk, rafmagni og vatni til setuliðsins verði stöðvuð, meðan skortur er á þessum nauðsynjum meðal landsmanna sjálfra,“ o. s. frv. —

Þ. e. a. s. þessi hv. þm. flytur nákvæmlega sömu till. sem hann er að mótmæla sem skaðlegri till., en með þessari viðbót.

Hvernig væri það, ef hætt væri að selja vatn til setuliðsins? Það hefur verið stungið upp á því að takmarka sölu á því. Hvernig ætti setuliðið að fara að, ef það yrði gert? Ekki getur það flutt inn vatn frá Ameríku! En ég skal ekki fara lengra út í það. Alþingi hefur nóg að vafstra í, þótt þessu sé sleppt.

Það er viðurkennt af þessum hv. þm. í þessum umr., að skortur er á mjólk í bænum. Það er líka viðurkennt af honum, að mjólkursalan til setuliðsins nemur 1300 til 1400 lítrum á dag. Utanrh. hefur upplýst á þingfundi, að setuliðið hafi endurtekið og ítrekað, að það óski aðeins eftir að kaupa afgangsmjólk. En um slíka mjólk getur ekki verið að ræða, meðan skortur er á mjólk í bænum. Hv. þm. Hafnf. tók það fram, að við vildum ekki banna sölu á mjólk til sjúkrahúsa setuliðsins, og vil ég taka þetta fram að gefnu tilefni. Sömuleiðis vil ég að gefnu tilefni lýsa yfir því, að hér er ekki verið að ámæla setuliðinu. Ef verið er að ráðast á nokkurn með flutningi þessa frv., þá er það mjólkursamsalan.

Ég skal ekki fullyrða, að með þessu yrði hægt að bæta úr mjólkurskortinum. En áður en farið væri að taka upp skömmtun á mjólk, tel ég rétt að fella niður mjólkursöluna til setuliðsins, sem óskar ekki annars en kaupa þá mjólk, sem afgangs er og til fellur.

Ef gera á samanburð á sölu mjólkur og vatns og rafmagns, þá er þess að gæta, að ríkissjóður greiðir uppbætur á mjólkina, en setuliðið kaupir rafmagn, þegar bærinn þarf ekki á því að halda, og greiðir hæsta verð fyrir.

Skal ég nú ekki tefja tímann með því að lengja mál mitt úr þessu. Ég vil ekki að þessu sinni ræða mjólkurmálið, en vildi gjarnan gera það síðar. Ég óska þess, að mál þetta gæti hlotið sem allra fyrst afgreiðslu.