27.10.1943
Sameinað þing: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í D-deild Alþingistíðinda. (3611)

98. mál, neyzlumjólkurskortur

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég get, eins og hæstv. forseti hefur farið fram á, orðið ákaflega stuttorður.

Það var svo að skilja á hv. þm. V.-Sk. sem ég hefði lýst yfir hér, að Reykvíkingar hefðu ýtt undir sölu rafmagns til setuliðsins í því skyni að græða á því. Þetta er auðvitað algerlega rangt. En sannleikurinn er sá, að með þeim verðlagsákvörðunum, sem setuliðið hefur verið látið sæta, hefur einmitt verið staðið á móti því, að setuliðið notaði rafmagn á þeim tíma, sem það gæti orðið öllum notendum í bænum til tjóns og baga. Og verðið er svo hátt, sem setuliðið hefur orðið að greiða fyrir rafmagnið, að það er útilokað, að það hafi notað rafmagnið, svo að nokkru nemi, til annars en ljósa. En það hefur af sérstökum ástæðum dregizt lengur en æskilegt hefði verið að fá viðbótar-ljósarafmagnið upp, en það hefur verið á það minnzt. En yfirleitt hefur það verið svo, að sú notkun, sem setuliðið hefur haft af rafmagni, hefur verið beinlínis til hagsbóta fyrir Íslendinga, en að engu leyti til óþæginda. Hvort það sama verður sagt um mjólkina, vil ég ekkert fullyrða um. Ég er ekki flm. þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir. Ég sagði á dögunum, að ég teldi þessa þáltill. ganga of skammt, þó að í henni væri réttur kjarni. Og það, sem ég vítti, var einungis það, að hv. þm. V.-Sk. skyldi vera svo hræddur við umr. um sjálft mjólkurmálið, að hann vildi ekki halda umr. um málið á þeim grundvelli, sem hann vitanlega hefði gert og mundi gera, ef hann væri alls óhræddur við að ræða málið á þeim vettvangi, sem ber að ræða það, heldur vildi hann færa umr. yfir á annað svið og tala um önnur mál, — sem vitanlega er velkomið að ræða við hann um líka, þó að ástæðulaust sé að draga umr. um þau mál hér inn í umr. um þessa till.

Að öðru leyti get ég vitnað til þess, sem ég sagði á dögunum um þetta mál. Mér þykir sanngjarnt, að þáltill. gangi til n.