27.10.1943
Sameinað þing: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í D-deild Alþingistíðinda. (3613)

98. mál, neyzlumjólkurskortur

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. — Hv. þm. V.-Sk. finnst ákaflega óeðlilegt, að bændur megi ekki fá að selja setuliðinu mjólk, hvernig sem á stendur, álíka eins og verkamenn mega ráða sig í vinnu hjá setuliðinu, og vill hann láta vera samjöfnuð þar á, sams konar réttlæti um hvort tveggja gilda. En vitanlegt er, að bændur vantar menn í vinnu við framleiðslu mjólkur, ef það er talið nauðsynlegt, að þeir fái verkamenn í vinnu til þess að framleiða mjólk handa setuliðinu. Ef mjólkurskorturinn kæmi eingöngu af því, að ekki væri nóga mjólk að fá handa Íslendingum, þá væri um allt annað mál að ræða. En eftir allt þetta, sem sagt hefur verið um þetta mál, þá vantar vinnukraft í sveitirnar til þess að framleiða þá vöru, sem bændur eru stundum í vandræðum með að selja og vilja fá rétt til þess að selja setuliðinu og það í svo ríkum mæli, að innlendi markaðurinn hefur ekki nóg af henni.

En í þessu sambandi er rétt fyrir okkur að athuga, hvernig ástandið var, löngu áður en setuliðið kom hér. Þá var talið þakklætis vert að taka menn í vinnu, af því að þá stóðu menn atvinnulausir í hópum. En þegar svo peningarnir fóru að velta inn í landið, þá hafa atvinnurekendur farið að athuga, að vinnuaflið væri þó einhvers virði. Og þá er byrjað að semja við setuliðið hvað eftir annað um, að það takmarki vinnuaflið, sem það taki í þjónustu sína hér á landi, og það gekk svo langt, að það var viss tala, sem komið var að, sem miða skyldi tölu íslenzkra verkamanna við, sem ynnu hjá setuliðinu. Og deilan var þá um það, að annars vegar vildu atvinnurekendur fá að nota vinnuaflið til þess að framleiða vörur, en hins vegar var setuliðið, sem vildi fá vinnuaflið, af því að það var það, sem það vantaði, og til að byrja með það eina, sem það vantaði. Og það er ekki aðeins í þessu, sem þessir menn halda, að þeir geti samið um þegnana í þjóðfélaginu. Það er nákvæmlega það sama, hvort um vinnuafl fólksins eða sjálfsákvörðunarrétt þess er að ræða, þeir halda, að þeir hafi sama rétt til þess að verzla með sjálfsákvörðunarrétt .fólksins sem vinnuafl þess, svo sem einhvern varning eða vöru. Og þeim þykir ranglátt, ef menn vilja ekki vinna þar, sem vinnuveitendurnir, sem þeir kalla, hafa aðstöðu til að klípa af vinnulaununum sér til ábata. Þetta er hin raunverulega undirstaða undir þeim deilum, sem um það snúast, að verkamenn megi helzt ekki vinna hjá setuliðinu, þ. e., að þeir sjá það þessir menn, að þar geta þeir ekki grætt á vinnu verkamannanna, með því m. a. að klípa af þeirra réttmæta arði af vinnu sinni með því að hafa þá aðstöðu, að sá arður fari gegnum þeirra hendur, þ. e. a. s. vinnuveitendanna. — Ég get aldrei fundið það, að maður, þótt verkamaður sé, hafi ekki raunverulega jafnan sjálfsákvörðunarrétt og aðrir menn í þjóðfélaginu.