27.10.1943
Sameinað þing: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í D-deild Alþingistíðinda. (3614)

98. mál, neyzlumjólkurskortur

Skúli Guðmundsson:

Í þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, er farið fram á það, að Alþ. skori á ríkisstj. að hlutast til um, að stöðvuð verði sala á mjólk til setuliðsins, meðan einhver skortur er á neyzlumjólk hér í Reykjavík og Hafnarfirði. Það er því þarna verið að fara fram á það, að þeim, sem framleiða mjólk, verði meinað að hafa viðskipti við setuliðið, sem hér dvelst, þó að þeir telji sér hag í því að selja til setuliðsins einhvern hluta af mjólkurframleiðslunni. Þarna er því í raun og veru lagt til, að þeirri stétt í landinu, sem vinnur að þessari framleiðsluvöru, sé bannað að selja nokkurn hluta af vinnu sinni til setuliðsins. Það virðist því ákaflega einkennilegt, þegar það kemur fram hjá hv. flm. þáltill. og fleiri hv. þm., að hitt geti ekki komið til mála, að það sé nokkuð skertur réttur annarra manna í þjóðfélaginu til viðskipta við setuliðið.

Síðast, þegar þetta mál var hér til umr., kastaði hv. 3. landsk. þm. (HG) fram spurningu, sem var á þá leið: Hvað batnar hagur bænda við það, þó að öðrum mönnum séu bönnuð viðskipti við setuliðið, þó að t. d. Reykjavíkurbæ sé bannað að selja setuliðinu rafmagn og vatn, þó að skortur sé á þessum nauðsynjum, og þó að verkamönnum sé bannað að selja þeim vinnuafl sitt? Hvað batnar hagur bænda við það? spurði sá hv. þm. Þetta virðist vera ákaflega saklaus spurning út af fyrir sig. En það má spyrja þennan hv. þm. að því, hvort hann álíti, að bændur hafi nokkuð við það að gera að hafa sömu réttindi í þessu þjóðfélagi og aðrir menn. Ef til vill lítur hann svo á, að þeirra hagur batni ekkert við það, þó að þeir njóti sömu réttinda og aðrir hafa.

Hv. 6. þm. Reykv. ræddi líka einkennilega um þessa þáltill. Hann segir, að það sé gersamlega óskylt mál þessu, sem hér liggur fyrir, að fara að tala um það að takmarka sölu á öðrum vörum til setuliðsins eða sölu á vinnu annarra manna en mjólkurframleiðenda, — það sé gersamlega óskylt mái. Og hann er hneykslaður yfir því, að raddir skuli koma fram um slíkt í sambandi við þessa þáltill., og hann telur, að þetta beri vott um, að þeir, sem andmælt hafa þáltill. á þskj. 171, þurfi eitthvað að fela, þeir treysti sér ekki til þess að ræða um þetta mjólkurmál eingöngu, heldur vilji þeir blanda einhverju óskyldu þar inn í. Þetta er mjög einkennilegur hugsunarháttur, sem þarna kemur fram hjá hv. 6. þm. Reykv. Ef fara á að banna bændum með öllu að hafa nokkur viðskipti við setuliðið, þá virðist mér það ekki fjarri lagi að láta slíkar takmarkanir líka ná til fleiri stétta í þjóðfélaginu. Þetta held ég, að öllum mætti vera ljóst. Og ég vænti þess, að sú hv. n., sem sennilega fær þessa þáltill. til meðferðar, taki þetta atriði sérstaklaga til athugunar.