28.10.1943
Efri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

120. mál, veitingaskattur

Pétur Magnússon:

Af því að hv. 1. þm. Eyf., sem átti að hafa framsögu í þessu máli fyrir hönd fjhn., er fjarverandi vegna lasleika, skal ég leyfa mér að segja örfá orð um þetta frv.

Í 2. gr. l. um veitingaskatt frá 1933 eru ákvæði þess efnis, að veitingasalar, sem selja fæði, mjólk og skyr, megi ekki selja fulla máltíð hærra verði en kr. 1.25. Það er tekið fram í þessari gr., að tilgangurinn með henni sé sá, að ódýrt fæði skuli ekki vera skattskylt samkvæmt l. um veitingaskatt, og þetta sýnist vera eðlilegt, enda er ekki tilgangurinn með þeirri löggjöf sá að leggja skatt á beinar neyzluvörur manna.

Eins og kunnugt er, hefur verðlag breytzt svo mjög, síðan þessi l. voru sett, að þetta ákvæði í 2. gr. er orðið ófullnægjandi. Það getur enginn veitingasali nú selt viðunanlega máltíð fyrir kr. 1.25, og lagaákvæðið hefur þannig misst marks vegna þeirrar breyt., sem hefur orðið á verðlagi í landinu. Þetta hefur orðið til þess, að ríkisstj. hefur borið fram þetta frv., sem hér liggur fyrir.

Í 1. gr. þessa frv. er mælt svo fyrir, að ef almennt verðlag á fæði breytist frá því, sem var við gildistöku þessara l., þá geti fjmrh. ákveðið það hærra en kr. 1.25 fyrir hvera máltíð. — Þessu frv. hefur verið vísað til fjhn. þessarar hv. d., sem hefur tekið málið til athugunar, og mælir hún einróma með því, að frv. nái fram að ganga. — Það er vitanlega við það miðað, að ríkisstj. noti þessa heimild, þannig að ódýrt fæði verði áfram, eins og upphaflega var til ætlazt, undanþegið veitingaskatti.

Ég hef svo ekki meira um þetta mál að segja, en vil fyrir hönd fjhn. leyfa mér að óska þess, að frv. verði samþ.