27.10.1943
Sameinað þing: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í D-deild Alþingistíðinda. (3620)

98. mál, neyzlumjólkurskortur

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að lýsa undrun minni yfir því, að hv. þm. fari svo með sannleikann sem hv. 3. landsk. þm. gerði, þegar hann sagði, að það væri óvefengt, að setuliðið hefði aldrei látið í ljós annað en það vildi ekki kaupa annað en afgangsmjólk á hverjum tíma. Nú veit hann það, að fyrir liggja yfirlýsingar frá einum mjólkurbússtjóra, þ. e. hjá Flóabúinu, um að menn, sem hafa séð um kaup á mjólk til setuliðsins, hafa látið í ljós, að þeir geti ekki haldið áfram að kaupa mjólk af Íslendingum, ef tekið er fyrir söluna á mjólk til þess um tíma. Slíkur málflutningur sem hv. 3. landsk. þm. í þessu efni hélt fram er því ósæmilegur með öllu, hvort sem hann kemur fram innan þings eða utan, að segja það, sem er gagnstætt því, sem liggur fullsannað fyrir. Auk þess er því ekki að leyna, að yfirstjórn hersins, þegar Mr. Bonesteel var hér yfirmaður hans, lét svo um mælt, — þ. e. Mr. Bonesteel fyrir hennar hönd, — að hernum væri lítið gagn að því að fá keyptar ýmsar vörutegundir hér, ef það væri bara um nokkurn tíma, því að þá hefði herstjórnin ekki tíma til þess að bæta úr vöntun þeirra vara með því að flytja þær hingað frá Ameríku, ef uppsögn okkar viðskipta við setuliðið í þessum efnum kæmi á óvart. Það er skýrt, að þeir vilja sem hreinastar yfirlýsingar í þessum efnum. Hitt er algerlega rangt hjá hv. 3. landsk. þm., að yfirlýsingar frá setuliðinu um það, að það ætlaði að halda áfram mjólkurkaupum eins eftir sem áður, þó að mjólkinni væri kippt alveg af því um tíma, hafi komið, áður en mjólkursamsalan ákvað að halda áfram mjólkurviðskiptum við setuliðið í haust, — þegar vitað var, að meiri mjólk var á innlenda markaðinum nú í haust en í fyrra um sama leyti. Og það var fyrst, eftir að ég bar fram fyrirspurn hér í þinginu, eftir að þáltill. þessi var flutt hér, að hæstv. ríkisstj. snýr sér til stjórnar setuliðsins og spyr um það, hvort herstjórnin vilji tryggja þessi viðskipti áfram, þó að mjólkurviðskiptin verði takmörkuð á þessu hausti, — og það er þá fyrst eftir það, sem fyrir liggja yfirlýsingar frá setuliðinu um þetta, eftir að ríkisstj. sneri sér til þess á þeim tíma, sem ég greindi. En það lá ekkert slíkt fyrir frá herstjórninni, að setuliðið mundi halda þessum viðskiptum áfram eins eftir sem áður, þó að viðskiptunum yrði hætt um tíma, — þegar þetta mál var til athugunar í mjólkursölun.

Þá sagði hv. 3. landsk., að það væri einkennilegt, að það væri sagt, að verið væri að deila á samtök bænda í þessum efnum; það væri ekki verið að því, heldur á okkur, sem stjórnuðum mjólkurmálunum. En hverjir stjórna nú mjólkurmálunum? Fulltrúar bænda. Við erum kosnir af bændum á mjólkurverðlagssvæðinu, og langflestir okkar eru bændur eða starfsmenn bænda.

Þá sagði hv. 3. landsk. þm., að það væri leiðinlegt, að það skyldi þurfa lögregluvörð við mjólkurbúðirnar hér í Rvík í haust. En slíkan vörð hefur þurft að hafa við mjólkurbúðirnar víðar á landinu, t. d. á Ísafirði.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að við andmælendur málsins þyrftum að draga önnur efni inn í umr. um það, vegna þess að málstaður okkar væri svo veikur, og það væri eins og við værum að reyna að fela eitthvað. Ég skil satt að segja ekki þessa röksemdafærslu. Ef hv. 6. þm. Reykv. ber fram frv., t. d. um að banna mér einhvern sérstakan verknað, sem hann framkvæmir svo sjálfur, þá sé ég ekki annað en það sé bezta röksemdafærslan móti hans máli, ef hann í því efni vill ekki þola það að ganga undir sama dóm og hann ætlar öðrum mönnum. Ég skil ekki annað en hann ætti að vita bezt um þetta, sem er að kenna mönnum lögvernd.

Hv. 3. landsk. sagði og hv. 6. þm. Reykv. endurtók það, að öðru máli væri að gegna, hvernig þessu væri svarað af hlutaðeigendum um rafmagn og vatn, en þegar um mjólk væri að ræða. Já, hvernig er svarið frá þeim? Bæjarbúar eru beðnir að takmarka vatnsnotkun sína og rafmagnsnotkun. Það gætum við gert líka. En það mundi eflaust vera talin svívirðileg árás, ef ég léti bæði útvarpið og blöðin flytja svofellda áskorun: Takmarkið mjólkina við ykkur. Látið börnin drekka minna af mjólk. — Ég hef ekki séð frá þeim aðrar till. til úrbóta en slíkar áskoranir, og er þó rafmagns- og vatnsskorturinn búinn að standa lengur en mjólkurskorturinn og á eflaust eftir að standa lengur, enda þótt bærinn eigi sjálfur að sjá um þau mál.