27.10.1943
Sameinað þing: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í D-deild Alþingistíðinda. (3623)

98. mál, neyzlumjólkurskortur

Eiríkur Einarsson:

Inn í þessa till. hafa blandazt nokkur önnur mál, og þau mál hafa verið rædd nokkuð á víð og dreif. Hefur það þá ýmist verið réttlætt eða því mótmælt, hversu málum hefur verið blandað saman, og læt ég það ekki til mín taka. En ástæðan til þess, að ég stóð upp, er sú, að mig langar til að hafa orð á örfáum málsatriðum, sem lúta að þessu umræðuefni.

Það er hver og einn, sem hugsar um þarfir líðandi stundar, og þegar bæjarbúa brestur nauðsynjavöru sína, mjólkina, skyldi engan furða, þó að fram komi till. um, að eitthvað verði gert til úrbóta. En hitt er annað mál, hvort tillgr., að banna sölu til setuliðsins, muni vera vænleg til að bæta úr skák eða hvort slíkt væri gerlegt eftir atvikum, og ég hygg, að nokkur bót í þessu máli komi á líðandi stundu af sjálfu sér, því að ef það er rétt, að salan sé svipuð frá degi til dags, þá á þetta ekki að vera tilfinnanlegt nema um það leyti árs, þegar um minnsta mjólkurnyt er að ræða, rétt áður en kýrnar fara að bera. Það er nú liðið á þetta haust, og annað haust kemur, og ég vona, að þegar því hausti lýkur, verði orðnar aðrar málsaðstæður. En ég hygg, að þessi umkvörtun í sambandi við söluna til setuliðsins sé atriði, sem lýtur sérstaklega að þessu hausti. Vitanlega getur allt komið fyrir, og er ekki hægt að sjá við öllu. En mér finnst, að málið hefði átt að ræða á víðari grundvelli. Till. hefði átt að vera víðtækari en er.

Annað málið á dagskrá í dag er um vegabætur yfir Svínahraun. Ég er reyndar ekki að víta hæstv. forseta, þó að hann hleypi þessu mjólkurmáli fram fyrir, en það var næst á eftir hinu á dagskránni. En þessi mál, sem eru til varanlegra úrbóta, eru alls ekki rædd, meðan dægurmálin eru rædd með slíku ofurkappi. Ég vil skírskota til þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar og væntanlega verður allshn., og beina því til hennar, hvort ekki muni ástæða til að athuga tryggingarmöguleika mjólkurafurða einmitt í sambandi við vegagerðirnar. Það er vitað, að þegar mjólkurbúin voru stofnuð, báru margir í brjósti kvíðboga um það, að ekki mundi verða unnt að fullnægja flutningaþörfinni vegna samgönguerfiðleika. Þær ástæður, sem fyrir voru þá, eru enn í gildi.

Hér er talað um, að hleypt hafi verið offorsi í málið. Forustumenn neytenda segja, að mjólkursamsalan hafi hleypt í það þessu offorsi, og hinir segja, að það sé fulltrúum neytenda að kenna. Ég legg ekki dóm á það, hvar offorsið er mest, en óneitanlega gætir ofstopa á báða bóga. En hófsamir bændur vita, að ekki verður úr bætt, nema hvorir tveggja lægi seglin, bæði þeir, sem eru fulltrúar bænda í þessum málum, og hinir, sem eru fulltrúar neytendanna.