27.10.1943
Sameinað þing: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í D-deild Alþingistíðinda. (3624)

98. mál, neyzlumjólkurskortur

Haraldur Guðmundsson:

Það er gagnslaust fyrir hv. þm. V.-Sk. að reyna að afla sér syndakvittunar með því að vitna í mjólkurskort á Ísafirði. Mjólkurskortinn þar og hér er ekki hægt að bera saman, og þar er enginn dropi seldur til setuliðsins. En ég skal skýra frá því, hvernig þar er tekið á málunum. Þar er auglýst í útvarpi og í búðunum, hvenær mjólkin kemur á daginn, svo að fólk þurfi ekki að híma eftir mjólkinni í búðunum eða koma þangað oft á dag. Hér í bæ hitta menn stundum á það, þegar mjólkin kemur. Stundum ekki. Væri ekki sjálfsagt að tilkynna það, t. d. í útvarpinu, hvenær ný mjólk er væntanleg? En ný mjólk, sem kemur kl. 11 eða kl. 2, er seld innan um aðra mjólk, sem er gömul og ætti ekki að drekka ósoðna. Hví ekki að láta fólk vita, hvenær nýja mjólkin kemur, og leiðbeina því um notkun á gamalli mjólk, eins og gert er þar, sem lag er á mjólkursölu? Væri það ekki betra en að fara að eins og mjólkursamsalan, að berja bara höfði við stein? Mér dettur ekki í hug, hvað sem hv. þm. V.-Sk. segir, að hann beri brigður á yfirlýsingar hæstv. landbrh. og utanrh. Hann fylgir bara sinni gömlu venju, að ganga á snið við aðalatriðin, en vera með dylgjur og troða illsakir við aðra. Mér dettur ekki í hug, að hann sé að halda því fram, að hæstv. ráðh. flytji rangar skýrslur. Hv. 2. þm. N.-M. sagði, að menn mundu óska þess, að setuliðið vildi auka mjólkurkaup sín, þegar aftur yrði hér um meiri en nægilega mjólk að ræða. Mér þykir sennilegt, að setuliðið verði fúst til þess að semja um mjólkurkaup á ný, þegar meira er til en þarf til að fullnægja þörfum bæjarbúa. Ekki vildi hv. þm. fullyrða í síðustu ræðu sinni, að það væri af eintómum illvilja, sem við hv. þm. Hafnf. hefðum flutt þessa þáltill., og er sjálfsagt að þakka þá sanngirni. Hins vegar vildi hann halda, að við hefðum bognað undir þunga almenningsálitsins. Hann taldi okkur ekki sjálfstæðari en svo. — En hvernig skyldi standa á þessu almenningsáliti? Mundi það ekki stafa af því, að mjólkursamsalan hefur ekki komið fram í þessum málum eins og henni sómdi? Mundi það ekki stafa af því, að hún hefur ekki tekið tillit til almenningsþarfa? Nei, það þarf ekki að leita langt að ástæðunni. Hún er eingöngu sú, hvernig mjólkursölul. eru framkvæmd. Og það flýtur út úr, — það er síðasta kornið, sem fyllir mælinn, — þegar lögreglan verður að halda vörð við mjólkurbúðirnar, svo að fólk troðist ekki undir. Og loks hælir stjórn mjólkursamsölunnar sér af því að selja þúsundir lítra til setuliðsins og láta ríkið borga tugi þúsunda í uppbætur fyrir mjólk, sem landsmenn þurfa, en fá ekki. Fyrir þetta liggur hún undir ámæli, sem verður aldrei bætt.