27.10.1943
Sameinað þing: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í D-deild Alþingistíðinda. (3625)

98. mál, neyzlumjólkurskortur

Jörundur Brynjólfsson:

Það er búið að tala svo mikið um þetta mál, að ætla mætti, að ekki þyrfti á að bæta. En þegar formælendur þáltill. koma fram með nýjar og nýjar staðhæfingar eða öllu heldur sömu vitleysurnar upp aftur og aftur í nýju formi, hvernig sem þær eru reknar til baka, þá getur maður ekki orða bundizt. Þessum hv. þm., er síðast talaði, væri nær að beita áhrifum sínum í þá átt að stuðla að því, að framleidd væri næg mjólk, en að hafast ekkert að eða jafnvel hafa stutt til þess gagnstæða.

Hv. 3. landsk. er búinn að viðurkenna, að mjólkurskorturinn sé stundarfyrirbrigði, og þó að nú séu framleiddir 3–4 þúsund lítrum meira af mjólk á þessu mjólkursvæði en nokkru sinni fyrr á sama tíma árs, á — eftir hans eigin tilmælum — að banna alla sölu mjólkur til setuliðsins, hvernig sem á stendur. Hann hefur nú samt dregið inn klærnar að einhverju leyti og er nú ekki á móti því, að setuliðið fái þá mjólk, sem það þarf til sjúkrahúsanna. Hv. þm krefst þess, að mjólkursamsalan finni einhver úrræði til þess að tryggja, að allir fái mjólk, en þurfi ekki að fara tómhentir úr mjólkurbúðunum. Veit hann ekki, eða þykist hann ekki vita, að mjólkursölul. veita bæjarstjórninni vald til þess að gera þá skipan á mjólkursölunni í bænum, sem henni finnst með þurfa? Þar hefði hann átt að beita áhrifum sínum til að tryggja réttláta skiptingu mjólkurinnar. En hann hefur ekkert gert, ekkert aðhafzt. Hvers vegna hefur bæjarstjórnin ekki tekið upp afgreiðslu gegn seðlum? Af því að það veldur fyrir fram umstangi og óþægindum fyrir hana sjálfa, en þó mundi það vera til mikils hægðarauka, bæði fyrir neytendurna og þá sem afgreiða mjólkina í búðunum. Hvernig hyggst hann þá að greiða fyrir því, að Reykvíkingar fái nóga mjólk? Bara með því að heimta, að bannað sé að selja setuliðinu mjólk.

Þetta er nokkuð einhliða hugsunarháttur. Og þegar formælendum þessarar till. er sannað, að mjólkurframleiðslan er meiri en nokkru sinni fyrr og allir gætu fengið nóga mjólk, ef salan væri almennilega skipulögð, þá bara standa þeir á fætur og vefengja hvað eftir annað allar yfirlýsingar frá stjórn mjólkursamsölunnar, bæði skriflegar og munnlegar. En ef hv. 3. landsk. vill ekki vefengja orð ráðh., þá hefur hann ekki heldur heimild til að staðhæfa, að aðrir, sem koma með yfirlýsingar í þessu máli, fari með rangt mál. Hv. þm. hefur haft þá aðstöðu, að honum hefði verið í lófa lagið að greiða fyrir því, að framleidd væri meiri mjólk, fyrst hann telur þess þurfa. Honum hefði verið nær að hugsa meira um framleiðslumálin yfirleitt. Nú er fyrir dyrum skortur á ýmsum nauðsynjum landsmanna, miklu meiri og alvarlegri en þessi margumræddi mjólkurskortur, og það má þakka að miklu leyti frammistöðu hans og flokksmanna hans, því að frammistaða þeirra í framleiðslumálunum hefur verið svo ömurleg, að henni mun lengi við brugðið, og útkoman öll þannig, að hennar munu engin dæmi finnast.

Ég vík nú aðeins fáeinum orðum að því, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði. Hann vildi leggja mikið upp úr því, að mjólkursamsalan starfaði samkvæmt lagafyrirmælum og bæri henni því lagaleg skylda að fullnægja þörfum neytendanna. Hann vildi álíta, að það væri allt öðru máli að gegna með vatn og rafmagn. Er ekki sala vatns og rafmagns framkvæmd samkvæmt lögum? Hafa þá ekki þeir, sem selja vatn og rafmagn, sömu skyldur gagnvart neytendunum? Bærinn hefur einkasölu á þessum tveimur nauðsynjum. Þó að menn vildu bæta sér upp rafmagnsskort eða vatnsskort, geta þeir það ekki. En neitar bærinn erlenda setuliðinu um vatn og rafmagn? Nei. Þegar þeir eru spurðir, hvers vegna ekki sé nóg vatn og rafmagn handa bæjarbúum, þá svara þeir bara með því að segjast skulu draga með valdi úr notkun manna á þessum gæðum. Ég veit ekki betur en Rafmagnsveita Reykjavíkur hafi hótað því, að ef rafmagnið væri ekki notað eins og hún segir fyrir eða öllu heldur sparað eins og hún segir fyrir, þá skuli tækin vera tekin af notendunum. Mjólkursamsalan hefur þó ekki hótað að svipta neytendurna mjólk. Ég hygg, að borgarstjóri, hv. 6. þm. Reykv., ætti að hafa þetta hugfast. Og þó að bæjaryfirvöldin geti látið sér þetta lynda, þá eru til önnur fyrirtæki, sem hann hefur ekkert yfir að segja.