02.11.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í D-deild Alþingistíðinda. (3633)

109. mál, vinnutími í vaga- og brúavinnu

Gísli Jónsson:

Út af ummælum hv. þm. Ísaf, um einn mætasta starfsmann þjóðarinnar, vegamálastjóra, vil ég taka það fram, að ég mótmæli slíkum ummælum sem óréttmætum. Hann er kunnur að samvizkusemi og ráðvendni í hvívetna, en í þessu máli er reynt að láta það líta svo út, að hann hafi viljað lengingu vinnutíma, en ekki kauphækkun.

Árið 1942 hélt ég því fram, að koma yrði á átta stunda vinnudegi um allt land, vinnuvernd. Ef vel er unnið, er meira afkastað á átta stundum en tíu, og það, sem vakað hefur fyrir vegamálastjóra, hefur verið að fá sem mest fyrir það fé, sem lagt er til vegagerðarinnar. Ef hann hefði leyft verkamönnum að vinna vikuna af sér á fimm dögum, hefði hann með því verið að rjúfa samninga. En þetta, að verkamenn vilja vinna í tíu tíma á dag, er alveg gagnstætt því, sem barizt hefur verið fyrir í fjölda ára.

Ég fæ tækifæri til að fjalla um málið í allshn., ef það fer þangað. Þangað til ég fæ það, hlusta ég með ánægju og mynda mér hugmyndir um málið.