03.12.1943
Sameinað þing: 38. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í D-deild Alþingistíðinda. (3647)

109. mál, vinnutími í vaga- og brúavinnu

Finnur Jónsson:

Ég sé ekki ástæðu til að vera að svara hv. þm. Barð., en ég stend á því, að samningarnir við Alþýðusambandið voru framkvæmdir af mjög litlum skilningi af þeim, sem áttu um þá að fjalla s. l. sumar, og gerður leikur að því að láta rekast á, svo að verkamenn yrðu óánægðir með þær kjarabætur, sem Alþýðusambandið útvegaði þeim. Um þetta eru dæmi að heita má alls staðar.

Hvað viðvíkur vegagerð yfirleitt, þá veit hv. þm. Barð., að Vestfirðir hafa orðið út undan, og hann skoðar það sem sitt höfuðverkefni á þingi að bæta úr þessu, og hygg ég, að hann hefði ekki haft mikið verkefni hér, ef hann hefði ekki mátt þakka vegamálastjóra, hvað Vestfirðir hafa orðið útundan. Hann hefur nýlega flutt þáltill. um, að alþm. fái línurit yfir alla vegi á landinu. Ég hef engan efa um það, að hann ætlar að hafa það upp á vasann til að sýna, hvað þeir voru litlir í hans kjördæmi, þegar hann varð þm. og hvað þeir hafa mjakazt áfram í þingmannstíð hans. Ég get fagnað yfir því, að sjálfsagt stöndum við saman um að bæta úr vegaleysinu á Vestfjörðum, sem stafar af litlum skilningi vegamálastjóra á þörf þessa landshluta.