26.11.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í D-deild Alþingistíðinda. (3660)

113. mál, uppbót á landbúnaðarafurðum

Skúli Guðmundsson:

Hv. 1. flm. þessarar till. hefur nú farið um hana nokkrum orðum og gert grein fyrir því, af hverju hún er fram borin. En efni till. er það að fela ríkisstj. að heimta sundurliðaðar skrár yfir úthlutun verðuppbóta skv. þál. frá 1942, á framleiðslu ársins 1942.

Hv. þm. segir till. ekki fram komna af því, að hann efist um, að uppbæturnar komist með skilum til þeirra, sem þær eiga að fá, heldur af því, að bæði þm. og allur almenningur hafi áhuga á að fá að vita, hvernig féð skiptist milli héraða og bænda, hve mikið komi í hluta hvers.

Út af þessu vil ég segja það, að ég er hræddur um, að þótt þessar skýrslur væru fengnar, mundu þær ekki gefa glöggt yfirlit yfir þessi atriði, því að fleiri njóta góðs af verðuppbótunum en þeir, sem taka beinlínis á móti þeim. T. d. má taka útflutt kjöt 1942 og verðuppbót á það. Vegna þess að það var vitað, er slátrun sauðfjár hófst haustið 1942, að tryggt var sama verð fyrir það kjöt, sem út yrði flutt, og það, sem selt yrði á innlendum markaði, varð engin togstreita milli þeirra verzlana, sem annast kjötsöluna, um að selja frekar til neytenda innan lands en til útlanda. Það var því í mörgum tilfellum tilviljun ein, sem réð, hverjir fluttu kjötið út og hverjir seldu það á innlendum markaði. Þar réð mestu um, hvort auðveldara var fyrir verzlanirnar að koma vörunni til sölu á innlendan markað eða flytja hana út. Og fleira kom þar til greina.

Um það bil ¼ hluti af kjötframleiðslu ársins 1942 var fluttur úr landi. Frá sumum samvinnufélögunum var helmingur og frá sumum meira en helmingur fluttur til útlanda, en frá öðrum var allt selt innan lands. T. d. var kjöt úr nokkrum héruðum Dalasýslu, Austur-Barðastrandarsýslu og Strandasýslu innanverðri selt allt á innlendum markaði. En frá sumum stöðum við Húnaflóa t. d. var kjötið allt fryst og flutt úr landi. Af þessu leiðir, að Dalamenn fá engar útflutningsuppbætur beinlínis, en njóta þeirra þó óbeinlínis þannig, að þeir fá að nota innlenda markaðinn. Allir fá sama verð fyrir kjötið að lokum, hvort sem selt er utan lands eða innan. Af þessu má sjá, að þótt þessar skýrslur yrðu fengnar, mundu þær ekki gefa gagnlegar upplýsingar. En ef flm. vilja fá upplýsingar um tekjur bænda á þessum tíma eða öðrum, yrði þeim tilgangi betur náð með öðru móti, t. d. með skýrslusöfnun yfir heildartekjur þeirra á ýmsum tímum. Ég vildi láta þetta koma fram, áður en málið færi til n.

Þá er annað atriði. Hér er talað um að leggja fyrir stj. að greiða uppbætur til bænda þeirra, sem framleiddu vöruna. Uppbótunum hefur alltaf verið úthlutað til framleiðenda, hvort sem þeir hafa verið bændur eða aðrir. Þegar Englendingar greiddu okkur fé fyrir markaðstöp, skipti útflutningsnefndin því niður á útfluttar afurðir. Það fé gekk til framleiðenda, og hefur þeirri reglu verið fylgt síðan. En flm. þessarar till. vilja breyta þessu og beinlínis skipa svo fyrir, að skipta skuli uppbótunum milli bænda, en aðrir framleiðendur eiga ekki að koma til greina.

Það skal játað, að það eru fyrst og fremst bændur, sem koma til greina við þessa úthlutun, en auk þeirra eru þó margir, sem hafa notið uppbótanna. Á flestum sveitaheimilum eru fleiri en bændurnir, sem eiga fé og selja afurðir, og virðist mér einkennilegt, ef þeir eiga að verða út undan. Víða þar, sem ég þekki til í sjávarþorpum, eru líka menn, sem eiga talsvert margt fé og framleiða meira en þeir nota sjálfir og selja því afurðir. Það er ekkert réttlæti í því, að þeir verði útundan við úthlutun uppbóta.

Þetta vildi ég láta koma fram til athugunar fyrir n., sem málið fær til meðferðar.

Ég vil ítreka, að ég tel, að litlar hagfræðilegar upplýsingar muni fást með þeirri skýrslusöfnun, sem hér er farið fram á. Aðrar leiðir eru betur til þess fallnar, ef menn vilja fá upplýsingar um tekjur bænda, því að það verður ekki glögg mynd, sem fæst með þessu móti.