26.11.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í D-deild Alþingistíðinda. (3663)

113. mál, uppbót á landbúnaðarafurðum

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Ég held, að það sé komið fram, að þessi þáltill. sé óþörf og óframkvæmanleg, þó að eftir henni ætti að fara. Og það hafa verið færð rök fyrir því af öðrum hv. þm. Að hún sé óþörf, byggist á því, að hver einasti bóndi á landinu veit það, — og það er sannarlega búið að minna hann á það nú um nokkurra ára skeið, — að hann fær þessar uppbætur. Og það mætti vera meiri sofandahátturinn af bændum, — og það eru kannske sumir, sem halda, að þeir séu eins og sofandi skepnur, — ef þeir vissu það ekki, að það er búið að greiða þeim uppbætur úr ríkissjóði, sem þeim — og þeim einum — eru ætlaðar. Og það þarf ekki að halda, að þeir gangi ekki eftir að fá þær uppbætur, sem þeim ber að fá samkv. þál., sem samþ. hefur verið um það. Og þegar það er athugað, að meiri hlutinn af þessari verzlun fer gegnum hendur félaga, sem bændur sjálfir eiga og stjórna, þá þarf enginn að ætla, að þessar uppbætur komist ekki til bænda. Og ég vil benda á, að þegar þessi þáltill. kom fram, þá var þegar búið að greiða mikið af þessum uppbótum. Og það hefur einnig verið gert síðan, þannig að meiri hlutinn af þessum uppbótum hefur verið greiddur. Þessi þáltill. kemur því eftir dúk og disk og er því óframkvæmanleg.

Ég vil því vegna þessa leyfa mér að bera hér fram rökst. dagskrá í málinu svo hljóðandi: „Þar sem uppbætur þær, sem tillagan ræðir um, eru nú að mestu greiddar og þegar af þeim ástæðum ekki unnt að framkvæma það, sem till. mælir fyrir um, þá sér Alþingi ekki fært að samþykkja hana og tekur fyrir næsta mál á dagskrá“.

Vil ég afhenda hæstv. forseta þessa dagskrártill. með tilmælum um, að hann leiti afbrigða fyrir henni.