15.12.1943
Efri deild: 67. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í D-deild Alþingistíðinda. (3758)

175. mál, vöruvöndun á fiski

Flm. (Jónas Jónsson):

Það, sem hér er farið fram á, er, að Ed. skori á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að gerð sé gangskör að því að tryggja aukna vöruvöndun á ísfiski og frystum fiski, sem sendur er til útlanda. — Það er öllum kunnugt, að á þessu hefur orðið nokkur misbrestur upp á síðkastið. Er það af skiljanlegum ástæðum nokkrum erfiðleikum bundið að flytja fisk til Englands. Sumt er flutt í enskum skipum, smáum eða stórum, sumt í færeyskum skipum, en það, sem mestu máli skiptir, er, að þjóðin er látin bera ábyrgð á gæðum fisksins. Það er ekki spurt að því, hvort hann er fluttur í eigin skipum eða leiguskipum. En sem sagt, það hefur orðið misbrestur á fiskútflutningnum, sem ekki verður gert við, nema ríkisstj. og útgerðarmenn taki höndum saman.

Ein aðalástæðan virðist vera sú, að þegar sett var hámarksverð á fiskinn í Englandi og fisksalan fór ekki að bera sig eins vel og hún hafði gert, þá var ekki hirt um að hafa nógu smá skilrúm eða nógan ís. Þetta er mjög bagalegt. Mér er kunnugt um einn togara, þar sem brýnt hefur verið fyrir áhöfninni að hafa lítinn fisk, svo að hann skemmdist síður, að hann hefur ekki orðið fyrir áföllum. En í Englandi hefur verið farið harkalegum orðum í okkar garð í blöðunum fyrir óvandaða vöru, en þeim orðrómi höfum við ekki aðstöðu til að hnekkja. Og ef þetta kemur hvað eftir annað fyrir, þá vinnur það á móti því, að við getum átt framtíðarmarkað í Englandi.

Ég hygg, að ekki sé nög gert að því að tryggja samstarf milli stjórnarvaldanna og útflytjenda, og þessi till. miðar að því að vekja athygli stjórnarinnar á að taka á málinu. Það er sama, hvort það fer til n. Stj. hefur heyrt þessar umr. og tekur e. t. v. tillit til þess, sem sagt hefur verið, hvort sem málið fer gegnum þingið eða ekki.