15.12.1943
Efri deild: 67. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í D-deild Alþingistíðinda. (3760)

175. mál, vöruvöndun á fiski

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég er ekkert á móti því, að málið fari til sjútvn., og þó að till. dægi uppi þar, geri ég ekki mikinn mun á því eða þó að hún yrði samþ. En það, að ég tók sérstaklega ísfiskinn nú, er af því, að það er í rauninni mest aðkallandi, og hef ég fengið um það nokkrar upplýsingar, síðan ég flutti þessa till. fyrst, frá manni, sem hefur haft þessi mál með höndum í Englandi, nefnilega það, að það virðist eins og kvartanir séu miklu minni, sem koma til stjórnarvaldanna þar um freðfiskinn en um ísfiskinn. Þetta álít ég, að sé þýðingarmikið, því að freðfiskurinn hlýtur að vera okkar framtíðarvara og það hefur mikið framtíðargildi, að sú vara haldi því orði, sem bezt getur verið, og þess vegna er ástæða til þess að gera frekari ráðstafanir viðvíkjandi freðfiskinum en ísfiskinum. Aftur á móti getum við hv. þm. Barð. ekki sannað eða afsannað neitt um það, hvað mikið hefur borið á skemmdum. En ég vil aðeins segja það, að sumir skipstjórar á togurum utan Rvíkur halda því fram, að þeir hafi ekki orðið fyrir skemmdum á fiski, en ég þekki aftur skipstjóra á bátum, sem viðurkenna, að það hafi orðið miklar skemmdir hjá þeim nú fyrir skömmu, og er það ekkert í sambandi við þær miklu skemmdir í sumar, sem lýst er og viðurkennt í grg., að hafi verið að nokkru leyti hitanum að kenna. En þá kom þingnefnd til, og eftir það komu fram fyrirspurnir í enska þinginu, og þá fóru stjórnarvöldin að hreyfa sig og viðhafa meiri gætni gagnvart fisksölunni. En þetta er alveg gagnstætt því, sem hv. þm. Barð. heldur fram.

Þá hafa ýmsir af þeim, sem hafa flutt fisk til Englands, orðið varir við vaxandi andúð og óttast hana, og þegar stórt blað, aðalfiskblað Englands, segir, að fiskurinn okkar sé kannske eitt af leynivopnum Hitlers, þá er það þungur dómur. Og við höfum enga aðstöðu til að hnekkja þessu nema með vöruvöndun. Við getum ekki komið með meiri vottorð um það, að það sje ekki rétt, sem stendur í Fishing News. Hv. þm. Barð. fannst hafa verið skrifað ómaklega um þetta mál, en jafnframt játaði hann, að þingið hefði svo freklega vanrækt að gera skyldu sína í þessum efnum, að ekki hefði komið fram nein till. um ísfiskinn. Það var lengi svo, að hver fiskpakki bar með sér, frá hvaða firma hann var, og þetta er eitt af því, sem verður að halda áfram, og það verður að fylgja fast eftir. Mér þótti vænt um að heyra, að það kom fram hjá hv. þm. Barð., að hann álítur óhjákvæmilegt að reyna að vinna ísfiskinn upp á sama hátt og saltfiskurinn var unninn upp, með vöruvöndun. En þessari vöruvöndun hefur ekki verið sinnt af þjóðfélagsins hálfu, en ég álít nauðsynlegt, að Alþ. stefni að því, að það verði betur gert í framtíðinni. Því meiri sem framleiðslan er, því meira þarf eftirlitið að vera. Mér skildist á hv. þm., að hann gæti hugsað sér eitthvert eftirlit með veiðunum og þeim, sem fara með fiskinn til útlanda, og það er vissulega nauðsynlegt. En ég er ekki alveg viss um, að það sé eins nauðsynlegt og hann hélt, það, sem stóð í blaðagreininni. Að vísu hafa sumir skipstjórar aðstöðu til þess að vanda vöruna, en þegar eftirlitið vantar, er hætt við, að vöruvöndun dragist niður. Þess vegna er þetta eftirlit, sem hv. þm. viðurkenndi, að væri nauðsynlegt, rökstuðningur fyrir því, að svona till. komi fram. Og það þarf að fylgja henni eftir af stjórnarvöldunum.