15.12.1943
Efri deild: 67. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í D-deild Alþingistíðinda. (3761)

175. mál, vöruvöndun á fiski

Ingvar Pálmason:

Ég tel aðalefni þessarar till. hið nauðsynlegasta. En ég tel mig ekki dómbæran að segja um það, á hvað miklum rökum þær aðfinningar eru reistar, sem komið hafa fram í Englandi um ísfiskinn úr skipunum. En hinu verður ekki neitað, að svo er orðið ástatt hjá okkur, að það er óumflýjanlegt að fá mat á fiskinn, þegar hann er seldur til skipanna, sem kaupa á ís, og alveg eins, þegar hann er seldur til frystihúsanna. Ég hygg raunar, að ríkisstj. hafi þetta nokkuð á valdi sínu. Ég hygg, að í fiskimatsl. frá 1936 sé heimild til þess, að stj. gæti falið skipuðum fiskimatsmönnum eftirlit með þessu, og ég álít, að það sé alveg nauðsynlegt og megi helzt ekki dragast. Mér er kunnugt um það, að fiskimatsmenn úti um landið og fiskimatsstjóri hafa opin augu fyrir því, að þetta mál er orðið aðkallandi, og ég hygg, að fiskimatsstjóri hafi gert einhverjar till. til ríkisstj. En að því er snertir að öðru leyti mat á fiski, sem skipin veiða og sigla sjálf með til Englands, þá veit ég ekki, hvernig því yrði fyrir komið. En ég kvíði því ekki svo mikið, ef við gætum fengið matið á fiskinn strax, þannig að í skipin færi aldrei nema góð vara, þ. e. a. s. fiskkaupaskipin, og væri þá ekki mikill vandi að rekja það, hvaðan skemmdi fiskurinn væri kominn. En ég vil hins vegar ekki draga úr því, ef fróðir menn sjá færar leiðir, að slíku mati verði komið á, og ég hygg, að það gæti borið góðan árangur.

Nú er svo komið, að þessi þáltill. verður sennilega ekki afgr. frá þessu þingi, því að mér skilst, að það sé viðurkennt af hv, flm., að það sé rétt, að hún gangi til n. En ég tel það heldur lakara. Ég held, að till., eins og hún liggur fyrir, sé nægileg ábending til stj. — Hitt er svo annað mál, þó að hv. flm. og hv. þm. Barð. greini dálítið á um rökstuðninginn. Það er mál út af fyrir sig, og skal ég ekki blanda mér svo mikið í það. En til þess að vinna málinu sem mest gagn vil ég leggja til, að hv. þd. vísi þessu máli til hæstv. ríkisstj.