28.10.1943
Neðri deild: 39. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

87. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson) :

Ég gat ekki farið sömu leið og meiri hl. n. Þarna er þó um hreinustu smámuni að ræða, bæði lítið vörumagn og tiltölulega lága tolla miðað við aðrar nauðsynjavörur. Þess vegna hefðu allir nm. átt að geta orðið sammála um að fella tolla alveg niður af þessum vörum, sem eru mjög nauðsynlegar landsmönnum og þyrftu að fást við vægu verði. Ég flyt ekki till. um aðrar óskyldar breyt. á tollskránni, því að ekki er vert að blanda þeim við þetta mál, en margar nauðsynjar eru óforsvaranlega hátt tollaðar.

Lækkanir tolla á ávöxtum, sem um ræðir, voru tilskildar í samningum Íslands og Bandaríkjanna, og eflaust yrði vel þegið í Bandaríkjunum, að meiri ívilnun yrði gerð og tollarnir afnumdir hreint og beint. Þegar það fer saman við óskir íslenzkra neytenda, virðist mér Alþingi ætti að taka tillit til þess.