03.12.1943
Sameinað þing: 38. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í D-deild Alþingistíðinda. (3803)

116. mál, rafveita Húsavíkur

Frsm. (Jónas Jónsson) :

Hv. þm. mun kunnugt um, að Húsavíkurhreppur hefur samið við Akureyrarkaupstað um að fá afnot af rafmagni frá ákveðnum hluta af Laxárvirkjuninni, en stækkun hennar stendur nú yfir. Þetta getur ekki orðið, nema komið verði upp leiðslunni frá stöðinni til Húsavíkur, og það er til þess að fá þetta nauðsynlega efni, sem farið er fram á ábyrgð ríkisins fyrir láni handa Húsavíkurhrepp. Húsavík hefur litla rafstöð, en framleiðsla hennar er ónóg fyrir kaupstaðarbúa. Það er sárt, ef ekki er hægt að láta þau kauptún, sem næst eru virkjuninni, njóta hennar. Ég hef því farið fram á, að ríkið ábyrgist lán til rafveitu Húsavíkur í þessu skyni.

Till. fylgir skjal frá Húsavíkurhreppi, þar sem því er heitið, að verði komið á öðru formi á rafveitukerfi í landinu, t. d. ríkisrekstri á raforkuverum, þá séu Húsvíkingar fúsir til að láta fyrirtækið af hendi til ríkisins.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, en vil óska þess, að veitt verði sú ábyrgð, sem till. fer fram á.