18.11.1943
Efri deild: 51. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

87. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Eins og um getur í aths. við þetta frv., er það afleiðing af verzlunarsamningum, sem gerðir hafa verið við Bandaríkin, en í þessum verzlunarsamningum var samið um ýmsar gagnkvæmar ívilnanir, sem áttu að greiða fyrir innflutningi vara frá Íslandi til Bandaríkjanna og frá Bandaríkjunum til Íslands. Ég skal ekki fara út í það frekar, en þær ívilnanir, sem Ísland fékk við þessa samninga, voru svo verulegar, að af Íslands hálfu var fallizt á að lækka tolla af sumum vörum, sem fluttar væru inn frá Bandaríkjunum. Þarna var um að ræða ný epli og nýjar perur, rúsínur og sveskjur, þ. e. a. s. lækka verðtoll á nýjum ávöxtum í 1/3, en af þurrkuðum ávöxtum um helming.

Ríkisstj. þótti henta, úr því sem komið var, að lækka tolla á þessum liðum og gera þá ekki greinarmun á ávöxtunum, heldur taka viðkomandi kafla alveg undir þetta sama, og það er augljóst, að það er óheppilegt að taka ákveðnar tegundir ávaxta út úr, það mundi gera það að verkum, að þeir ávextir mundu eingöngu verða fluttir inn, sem hefðu lægri toll. Eins og nú er, þá er sama tollskráin yfir allar þessar vörur, en hér er gert ráð fyrir að lækka toll á þurrkuðum ávöxtum um helming, eins og það hlýtur að verða í framtíðinni, og um það er svo frv. ríkisstj., sem sé að lækka verðtollinn úr 30% niður í 10% af nýjum ávöxtum, en úr 50% niður í 25% af þurrkuðum ávöxtum. Það er þessi breyt., sem gerð er á móti ívilnunum frá Bandaríkjunum. Á hinn bóginn eru margir þeirrar skoðunar, að tollur á þessum vörum hafi verið mjög hár og það sé því neyðarúrræði, sem hér sé farið inn á. Þetta kemur í ljós í nál. og meðferð fjhn. Nd., því að þar klofnaði n. um málið, og vildi einn nm. ganga lengra í þessu efni og fella alveg niður toll af þessum ávöxtum. Í fjhn. þessarar d. var einnig svipaður ágreiningur, þó að n. klofnaði ekki, því að einn nm. hefur skrifað undir nál. með fyrirvara, og gerir hann sjálfsagt grein fyrir honum. En ég hygg, að ágreiningurinn hafi einmitt verið í þessa sömu átt og kom fram í Nd. Ég hef svo ekki fleira um þetta mál að segja fyrir hönd meiri hl. en að mæla með því, að frv. þetta verði samþ. óbreytt.