01.11.1943
Neðri deild: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

130. mál, reikningaskrifstofa sjávarútvegsins

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er lagt fram, er samið af mþn. í sjávarútvegsmálum, en borið fram af stj. og er ætlað að bæta úr verulegri vöntun á upplýsingum um annan aðalatvinnuveg landsmanna; sjávarútveginn. Það hefur sýnt sig hvað eftir annað, þegar þurft hefur á upplýsingum að halda í þessu efni, að þær hafa ekki verið til staðar, og hefur þurft í hvert skipti að eyða mikilli vinnu í að safna skýrslum um, hvað væri hvað. Þetta er ástæðan til þess, að stj. er samþykk mþn. um, að hér þurfi úr að bæta. Það er gert ráð fyrir að stofna sérstaka skrifstofu, sem haldi skýrslur um útgerðina, skýrslur, sem ekki er hægt að fá annars staðar, og er gert ráð fyrir, að þessi reikningaskrifstofa verði í sambandi við Fiskifélag Íslands og undir þess umsjá. Með því ætti að vinnast tvennt. Hún ætti að verða ódýrari í rekstri en ef hún er rekin sérstök, og í öðru lagi hefur Fiskifélagið af mörgum ástæðum betri skilyrði til þess að afla þeirra gagna, sem þarf, en aðrir.

Það er eitt atriði, sem ég vildi sérstaklega taka fram til athugunar fyrir þá n., sem þetta lagafrv. fer til eftir þessa 1. umr., og það er, hvort ekki sé æskilegt og nauðsynlegt, — þó það sé ekki í frv., — að útvegsmenn séu skyldir til þess að láta skrifstofunni í té þær upplýsingar, sem hún þarf með. Stj. hafði til athugunar að bæta þessu inn í frv., eins og það kom frá mþn., en við nánari athugun var tekin sú ákvörðun að láta það fara eins og það kom, en beina því í staðinn til athugunar og ákvörðunar þingsins, hvort þetta skuli gert.

Ég geri ráð fyrir, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til sjútvn.