08.11.1943
Neðri deild: 42. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

130. mál, reikningaskrifstofa sjávarútvegsins

Frsm. (Finnur Jónsson) :

Sjútvn. hefur athugað þetta frv. og mælir með því, að það verði samþ. óbreytt. Svo sem sagt er í frv., er ætlazt til, að sett verði á stofn sérstök skrifstofa, sem útvegi upplýsingar um afkomu sjávarútvegsins á þann hátt að fá upplýsingar frá ýmsum útgerðarfyrirtækjum í landinu. Vel má vera, að þetta komi ekki að fullu gagni nema því aðeins, að útgerðin verði skylduð til þess að gefa reikningslegar upplýsingar varðandi afkomu sína. En mþn. í sjávarútvegsmálum taldi rétt að fá þessar upplýsingar fyrst um sinn með frjálsum vilja, en komi það í ljós, að ekki sé hægt að fá þær nema með lagaboði, verður sjálfsagt að fara þá leið. — Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en vil óska þess, að frv. verði vísað til 3. umr.