04.11.1943
Sameinað þing: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

27. mál, fjárlög 1944

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Út af fyrirspurnum þeirra hv. þm. Ísaf. og hv. 2. þm. S.-M. út af því fé, sem verða kann afgangs af því fé, sem á að nota til verklegra framkvæmda, þá hef ég áður lýst yfir því, að vegamálastjóra hafa á þessu ári verið gefin fyrirmæli um það, að það fé, sem ekki yrði notað til þessara framkvæmda, yrði lagt til hliðar á sérstaka reikninga. Ég fyrir mitt leyti er alveg fylgjandi þeirri stefnu, að þetta sé gert, og að það væri einnig gert fyrir næsta ár. En ég vil bara taka það fram, að frá minni hálfu er það að sjálfsögðu háð því, að þessar tekjur, sem til þess þarf, séu til staðar í ríkissjóði. Og ég get því vel lýst yfir frá minni hálfu, ef ég hef með þessi mál að fjalla á næsta ári og ríkissjóður getur staðið straum af þeim útgjöldum, sem eru ætluð til verklegra framkvæmda, að ég mun leggja til, að það, sem ekki verður notað, verði lagt til hliðar, til þess að síðar verði hægt að nota það í því skyni, sem ætlað er. (FJ: En hvað um vitamálastjóra? ) Það hefur, að því er ég bezt veit, venjulega verið fylgt þeirri reglu, að vitamálastjóri hefur tekið til sín það fé, sem þeim framkvæmdum er ætlað, sem undir hann heyra, og ég hygg, að hann hafi einhverja sjóði í sínum vörzlum, sem þannig eru til komnir.