04.11.1943
Sameinað þing: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

27. mál, fjárlög 1944

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. talaði hér fyrst við þessar umr. um það, að sér virtist kenna mikillar bjartsýni í brtt. þeim, sem fram eru komnar frá meiri hl. og minni hl. fjvn. Ég held, að það sé rétt fyrir okkur við þessa 2. umr. málsins, þegar það er í raun og veru til umr., hvaða stefnu skuli taka í sambandi við fjármálastjórnina á næsta ári, að gera okkur ljóst, hvort það er á valdi okkar sjálfra, hvort við höfum rétt til þess að vera bjartsýnir á þessi mál eða ekki. Ég held, að óhætt sé að ganga út frá því — og mér virðist það líka koma fram hjá flestum —, að þessi fjárl., sem er verið að semja, séu fyrir ár, sem verði í raun og veru nokkurs konar eftirstríðsár. Það er gengið út frá því, bæði í þessari viðvörun hæstv. fjmrh. og eins virðist mér það vera í álitum beggja hluta hv. fjvn., að það muni ekki verða þá við samsvarandi árferði að búa, fjárhagslega séð, og verið hefur á undanförnum árum, sem sé, að þær tekjur, sem landsmenn hafa haft í sambandi við stríðið, muni ekki verða a. m. k. eins miklar á næsta ári — tekjur, sem við ekki ráðum við, eins og þær hafa verið á undanförnum árum. Setjum nú svo, að þetta verði reyndin, að á árinu 1944 muni stríðinu ljúka snemma á árinu og atvinnulíf okkar og tekjur og þar með tekjur ríkissjóðs mótist af því, að þetta verði eftirstríðsár, — þá ætti okkur að vera því fremur áhugamál að athuga, hvernig við getum hagað svo til, að við höfum rétt til þess að vera bjartsýnir. Á undanförnum árum hefur það orðið þannig, án þess að við höfum beinlínis að gert, að miklar tekjur hafa komið í ríkissjóðinn. Nú hins vegar, ef viðhorfið kynni að breytast á þann veg, að næsta ár yrði nokkurs konar eftirstríðsár, þá liggur fyrir okkur að athuga, hvort við gætum skipulagt það sjálfir, að við fengjum þessar tekjur. Og ég vil í því sambandi leyfa mér að benda á, að svo mikið sem Ísland hefur getað selt af afurðum á undanförnum tíma vegna styrjaldarinnar, þrátt fyrir þá erfiðleika, sem við það voru tengdir að flytja vörur yfir hafið, þá mundu, frá öllu venjulegu sjónarmiði séð, möguleikarnir til þess að selja eiga að vera margfalt meiri, ef stríðinu lyki snemma á næsta ári og Íslendingar bæru sig að því að reyna að uppfylla eitthvað af þeirri gífurlegu þörf, sem verður að stríðinu loknu fyrir vörur, sem við framleiðum. Við Íslendingar framleiðum það mikið af mat, og sérstaklega sjávarafurðir, að sú grein framleiðslu okkar slagar hátt upp í það, sem stórþjóð eins og Englendingar framleiðir. Þörfin fyrir þessa vöru okkar er svo gífurleg í þeim löndum Evrópu, sem enn eru lokuð, að svo framarlega sem ekki strandar á einhverjum málum innanlands eða okkur sjálfum, þá ætti að vera auðséð, að öll okkar framleiðsla og allt okkar atvinnulíf ætti að taka stórfelldum framförum við það, að Evrópumarkaðurinn opnaðist fyrir okkur. Vitanlega þarf að uppfylla ýmis skilyrði til þess að þetta sé hægt. Það þarf að tryggja okkar gjaldeyris- og gengismál, að samkeppnismöguleikar okkar séu í lagi og framleiðslutæki okkar, bæði þau, sem við eigum, og hugsanlegt er, að við getum útvegað okkur. Og síðast en ekki sízt þyrfti að tryggja það, að ekkert tækifæri verði látið ónotað til þess að gera svo hagfellda samninga sem hægt væri við þau erlendu ríki og þjóðir, sem vilja ekkert frekar en að fá okkar vörur, en eins og alltaf munu sjá ýmis vandkvæði á því út af verðlagi og flutningi. En ef ekki á að stranda á okkar eigin hæfileikaleysi eða framtaksleysi eða öðrum göllum, sem á okkar atferli kynnu að vera, ætti að vera gefið, að okkar atvinnulíf eftir stríðið gæti staðið með meiri blóma en nú, meðan stríðið stendur. En það verður því aðeins, að við verðum viðbúnir að gera ráðstafanir til þess að verða viðbúnir til þess að nota okkur þá aðstöðu, sem við þá höfum til þess að ná til mjög mikils markaðar fyrir okkar vörur, sem þá verður, og til þess að uppfylla þarfir sveltandi manna. — Ég held því, að það sé undir okkur sjálfum komið, hvort við höfum rétt til þess að vera bjartsýnir við samning þessara fjárl. Ég held, að það sé undir því komið, hvaða þjóðfélagslegar ráðstafanir við gerum samtímis því, að við samþ. þessi fjárl. viðkomandi okkar atvinnulífi á ýmsum öðrum sviðum.

Og þá kemur strax fyrsta spursmálið í sambandi við þetta, sem er, hvort við Íslendingar viljum, að okkar atvinnulíf standi í blóma á næsta ári og framleiðsla okkar verði rekin með fyllri krafti heldur en nú er, eða hvort við óskum eftir því beinlínis að fá yfir okkur atvinnuleysi og hrun. Það hafa komið fram úr vissum áttum hér í landinu mjög oft endurteknir spádómar um það, að eftir stríðið geti ekkert tekið við fyrir Íslendingum nema atvinnuleysi og hrun. Ég býst við, að Ísland sé einasta landið í veröldinni, þar sem ráðamenn í stjórnmálum hafa þá ósvífni til að bera að voga sér að bjóða þjóð sinni upp á annað eins og segja eða halda fram, að það, sem eigi að taka við eftir þessa styrjöld, sé atvinnuleysi og hrun. Það er vitanlegt, að hver einasti stjórnmálaleiðtogi helztu landanna í hópi lýðræðisríkjanna lýsir því nú yfir, að það nái ekki nokkurri átt, að eftir þessa styrjöld eigi þjóðirnar aftur að búa við það atvinnuleysi og hrun eins og var fyrir hana. Það er vitanlegt, að hjá íslenzku þjóðinni, eins og öðrum þjóðum, er nægur vilji til þess að gera þær ráðstafanir, sem þarf til þess að koma í veg fyrir þetta. Það er ekkert, sem menn óttast meira og fjöldinn vill síður en atvinnuleysi og hrun. Spurningin, sem þess vegna liggur fyrir — einnig í sambandi við afgreiðslu þessara fjárlaga — er, hvort Alþ. vill gera ráðstafanir til þess að hindra það, að atvinnuleysi komi aftur yfir okkar þjóð. Við vitum, hvað atvinnuleysi mundi koma til með að þýða, ekki aðeins fyrir verkamenn í kaupstöðum, heldur líka fyrir bændur í sveit. Við munum enn ástandið 1931, þegar þúsundir verkamanna gengu atvinnulausir á mölinni og bændur voru að flosna upp tugum og jafnvel hundruðum saman og skuldabaggarnir voru sífellt að þyngjast. Ég býst við, að í raun og veru þurfi ekki að ræða það mál, hvort meiri hluti þjóðarinnar óskar eftir því, að slíkt atvinnuleysi komi aftur. Hins vegar eru þessar síendurteknu spár frá hálfu leiðandi stjórnmálamanna í landinu, eins og hv. þm. S.-Þ. (JJ), um það, að atvinnuleysi og hrun muni koma eftir stríðið. Og afstaða þessara manna til slíkra mála hér á þingi virðist vera þannig, að þeir beinlínis ætlist til þess, að þetta komi. Nú er vitanlegt, að það er einmitt þessi sami hv. þm., sem manna mest hefur talað um þetta í landinu, og meira að segja virðist hann vera að skera upp herör til þess að búa ákveðna stétt manna undir bardaga og blóðsúthellingar í slíku sambandi, því að hann er sá maður, sem að mestu leyti ræður í fjvn. Svo að það mundi engan undra, þó að afgreiðsla fjárl. nú væri að einhverju leyti í samræmi við það, sem ekki verður betur séð en að séu óskir þessa manns. Það er líka vitanlegt, að það hefur nú orðið allmikill ágreiningur í fjvn., og að því er virðist eftir nál. er hann sérstaklega um tvennt. Í fyrsta lagi, hvernig áætla skuli tekjurnar, og í öðru lagi, hvernig verja skuli gjöldum. Við ákvörðun teknanna er auðséð, að meiri hl. fjvn. — sem auðsjáanlega lætur stjórnast af hv. þm. S.-Þ. — vill líta svona ekki sérstaklega bjartsýnt á þetta, heldur vill ganga út frá því, að á næsta ári fari atvinnuleysi og hrun að byrja. Og hvað gjöldin snertir og það, hvernig verja skuli þeim, virðist þessi meiri hl. ganga út frá því, að ekki skuli gera stórtækar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, að atvinnuleysi komi á næsta ári. Minni hl. fjvn. hefur, að mér virðist til prufu, lagt fram sérstaklega sínar brtt., sem ég vildi gera að umtalsefni, sem hlýtur að vera prófsteinn á það, hvað Alþ. vill af mörkum leggja til þess að skapa öruggari atvinnu hér á næsta ári og árum heldur en var fyrir stríð, en till. minni hl. fjvn. er um 10 millj. kr. framlag til byggingar fiskiflotans. Það er vitanlegt, og þarf ekki að fara mörgum orðum um það hér, að öll okkar atvinnuaukning, að svo miklu leyti sem hún á að vera eðlileg, hlýtur að beinast að sjávarútveginum. Og möguleikarnir til þess að skapa þessa aukningu flotans hljóta fyrst og fremst að vera því skilyrði bundnir, að við leggjum eitthvert fé til hliðar til þess að koma upp þeirri aukningu flotans, Við vitum allir, að með því að leggja 10 millj. kr. í ný fiskiskip getum við fljótar skapað aukna framleiðslu eftir stríð, sem að gagni komi, heldur en með því að leggja þetta fé í iðnað eða landbúnað. Því að það er mín skoðun, að strax eitt eða tvö ár eftir stríðið hljóti að verða þau ár, sem markaðsmöguleikar fyrir Ísland verði þeir mestu, sem við nokkurn tíma höfum kynnzt, og að þá ríði á því, að fiskifloti okkar verði eins mikill og mögulegt er. Ég skal hins vegar ekkert draga úr þeim stóru vandkvæðum, sem á því verða að fá fiskiflotann aukinn strax upp úr stríðinu, né heldur þeim vandkvæðum, sem stafa af því, að það verður vafalaust reikningslega séð ópraktiskt að láta byggja skip strax eftir stríðið. Þau verða þá dýrari en seinna, — en hins vegar koma þau þá nógu snemma til þess að gefa miklu meira af sér en þau koma til með seinna. Hins vegar er vitanlegt, að við mundum e. t. v. geta nú þegar gert einhverjar ráðstafanir til þess að afla okkur þessa fiskiflota, ef við værum ákveðnir í því nú þegar að gera það. Ég veit ekki, hvort það hefur verið rannsakað enn, en gott væri vafalaust að fá hugmynd um það, hvort reynt hafi verið að fara fram á það t. d. við Svía, að þeir byggðu skip fyrir okkur á meðan á stríðinu stæði, ef þeir gætu afkastað því. Og við þurfum að gera okkur grein fyrir, hvort við álítum rétt, að við verðum að taka ákvörðun um þetta strax í sambandi við fjárl., sem nú er verið að afgreiða. Ég býst ekki við því, að þeir einstaklingar í hópi útgerðarmanna, sem undanfarin ár hafa fengið sérréttindi af hálfu ríkisvaldsins til þess að leggja fé í nýbyggingarsjóði, muni láta byggja skip strax upp úr stríðinu. Ég býst við, að þeir muni reikna dæmið þannig kalt og rólega út, án tillits til þjóðarnauðsynjar: Skipin verða ódýrari, þegar nokkuð langt er liðið frá styrjaldarlokum, og peningarnir þess vegna meira virði. Ef þeir sjá til þess, að atvinnan verði sem minnst eftir stríðið, þá geta þeir sett kaup verkamanna niður. Þeir geta hugsað sem svo, að það sé í þeirra þágu að fá atvinnuleysistíma upp úr stríðinu. Ég get því búizt við, að þeir mundu alls ekki byrja á því á næsta ári, þó að stríðinu lyki í vetur, að fara að láta byggja skip. En frá sjónarmiði ríkisins lítur þetta allt öðruvísi út. Það væri eðlilegt, að ríkið liti svo á, að það væri hagkvæmt fyrir þjóðina að fá skipaflota, eins mikinn og hægt væri að byggja, undireins og geta sett svo mikinn kraft á sjávarútveginn sem frekast væri unnt, ekki aðeins til þess að fyrirbyggja atvinnuleysi, heldur líka til þess, að þjóðin geti notað sér þá markaði, sem opnast okkur að styrjaldarlokum.

Ég held, að við Íslendingar höfum ekki áttað okkur á, hvernig veröldin er í kringum okkur, ef við höldum, að við getum staðizt með okkar þjóðarbúskap án þess að beita okkar sterkasta samtakamætti, í þessu tilfelli ríkisvaldinu, til þess að tryggja okkur atvinnulega út á við svo vel sem unnt er. Ég held því, að ef við viljum ekki ganga inn á, að ríkið hafi afskipti af að byggja fiskiskipin, þá sé eitt af tvennu, annaðhvort kalkaður hugsunarháttur, sem tekur ekkert tillit til staðreyndanna í heiminum, eða þá að menn beinlínis vilja stefna að því að gera þeim, sem vilja fá atvinnuleysi, mögulegt að fá það. Ég álít þess vegna, að till. minni hl. fjvn. um 10 millj. kr. framlag til byggingar fiskiskipa sé eins konar prófsteinn á forsjálni okkar þings. Ég vil taka það fram, að ég skil þessa till. ekki þannig, að þar sé átt við, að ríkið eigi að eignast þessi skip, þ. e. a. s., að þar sé verið að slá föstu því prinsípi, að ríkið skuli eiga fiskiflotann. Aðalatriðið er, að ríkið eigi framtakið um, að skipin verði byggð, vegna þess að það þyki ekki rétt að treysta framtaki einstaklingsins í því atriði. Ef til vill verður ópraktiskt reikningslega séð að byggja skip strax eftir stríðslok, og það er eðlilegt, að ætlazt sé til þess, að ríkið taki á sig nokkurn halla af slíku, af því að það mun hins vegar tryggja ríkinu þann framtíðarhagnað, sem mun af því stafa, að sjávarútvegur okkar geti verið sem mestur þegar eftir stríð. Það þarf því ekki að hindra neinn frá að standa með þessari till., hvaða form eigi að vera á okkar fiskiflota. Ég vil því biðja hv. þm. að íhuga þessa till. mjög rækilega og láta í ljósi skoðun sína um, hvort þeir telji ekki nauðsynlegt, að ríkið hafi afskipti af þessum málum. Ég býst ekki við, að neinum ógni upphæð sú, sem hér er um að ræða. Þing, sem nýlega hefur fengið tilkynningu um, að eigi að borga 9 millj. kr. uppbót á gærur frá 1942, þarf ekki að láta sér vaxa í augum að leggja 3–10 millj. kr. í að byggja upp fiskiflotann. Við vitum, að þetta er ekki eyðslufé, heldur fer það til eignaaukningar ríkisins. Það er fé, sem er beinlínis sparað og getur gefið stórfelldar tekjur beint og óbeint.

Það er venjulega svo við 2. umr. fjárl., að þá kemur ekki fram nema nokkur hluti brtt. við fjárl., en meginið er látið koma við 3. umr. Ég ætla því ekki að sinni að gera margt fleira að umtalsefni en þessa till., meðfram vegna þess, að ég álít, að afstaða okkar til vandamála þjóðfélagsins markist mikið af því, hvað verður um þessa till., og á því sjáist, hvaða tökum þingið ætli að taka vandamál þjóðfélagsins.

Það þarf enginn okkar að hugsa sér, að hér verði sama þjóðfélag eftir stríðið og var 1939, þegar stríðið hófst. Hver, sem hugsar slíkt, hann mun reka sig á, að fólkið mun alls ekki sætta sig við það. Það er grafinn sá lýður, sem vill beygja sig undir annað eins og landbúnaðarkreppuna 1931 og atvinnuleysisárin 1933–1939. Menn vita, hvað vinnuaflið getur gefið, ef þeir fá að vinna. Menn koma ekki til með að sætta sig við annað en að hafa tækifæri til að vinna alla daga ársins, sem þeir vilja vinna, og menn óska eftir að mega vinna að því, sem hagnýtast er fyrir land og þjóð og þá sjálfa. Það er því vitað, að Alþingi, sem er sú stofnun, sem þessu getur ráðið og á að ráða, kemur til með í fjárl., sem gilda eiga fyrir árið 1944 ,að marka stefnuna um þetta, og það er það, sem ég held, að sé nauðsynlegt, að komi greinilega fram við þær umr., sem hér verða.

Ég vil svo að síðustu minnast nokkrum orðum á það, sem hæstv. fjmrh. var að segja um till. sósíalista. Hann var að tala um, að áætlunarupphæð sósíalista á tekjunum væri mjög há, en hins vegar vildi Sósfl. afnema tolla af nauðsynjavöru til að lækka dýrtíðina. Það er alveg rétt, Sósfl. er með því að lækka tolla á nauðsynjavörum til að lækka dýrtíðina. Hins vegar hefur það áhugamál okkar fengið svo daufar undirtektir í þinginu, að við sjáum enga von til að fá því komið fram. Við reyndum þetta í einu atriði, tolli af ávöxtum, það hefði kostað ríkið á annað hundrað þús. kr. Það var kolfellt. Við sjáum því ekkert færi á að geta fengið þetta fram eins og sakir standa. Tollalögin eru í gildi, og fjárl., sem við erum að semja, verða miðuð við, að þau verði í gildi, hvort sem okkur þykir ljúft eða leitt. Þess vegna álítum við rétt að áætla tollana eins og líkur eru til, að þeir verði, en ekki lægra. Meðan þessir leiðu tollar eru í gildi, viljum við reyna að fá því framgengt, að það fé verði notað þannig, að það komi að sem mestu gagni fyrir alþjóð. Þess vegna er engin mótsögn í þessu, eins og hæstv. fjmrh. vill vera láta. Væri það hins vegar svo, að hæstv. stj. eða einhverjir flokkar vildu standa að því, að breytt yrði um í dýrtíðarmálunum og tekin upp sú stefna að afnema tolla af nauðsynjavörum, mundi ekki standa á okkur að koma með brtt. í þá átt við fjárl. Hins vegar verðum við, meðan þetta er allt óbreytt, að standa á grundvelli staðreyndanna, alveg eins og hæstv. ríkisstj. gerir í sjálfstæðismálinu.