08.10.1943
Neðri deild: 29. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Það má að vísu segja, að ef ekki hefði komið neitt nýtt fram í málinu, þá hefðu menn vel getað sætzt á það, að hv. allshn. fengi um þetta frv. ráðið, eins og nál. á þskj. 137 bendir til. Þar er að vísu getið um, að einstakir nm. áskilji sér rétt til brtt. og því um líks, og er það í skjóli þess, — þó að af nál. á þskj. 137 sé ekki annað að sjá en n. sé óklofin, — að hv. 1. þm. Árn. (JörB) kemur hér með brtt. á þskj. 151, sem er að vísu að efni til gamall kunningi. En ég hélt, að sá gamli kunningi væri úr sögunni með þeirri millileið, sem hér er farin milli nokkurra öfga á báðar hliðar. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er stjfrv., sem hæstv. dómsmrh. hefur staðið að. Og hæstv. ráðh. hefur gert grein fyrir því, að með samþ. þessa frv. sé úr sögunni sú undanþáguheimild, sem gerð var í 1. nr. 66 frá 1939, um, að lögreglustjórinn í Reykjavík þyrfti ekki að hafa lögfræðipróf undir þeim kringumstæðum, sem var getið, en hinu slegið föstu í frv., að sá lögreglustjóri, sem skipaður var samkvæmt þessari undanþágu, haldi að sjálfsögðu, að því er l. snertir, sínu embætti. M. ö. o., lögin ætlast ekki til — og ekki nema sérstök ákvæði væru sett um það —, að hann færi úr embætti sínu, þó að þetta verði lögleitt. Það þarf alveg sérstakt til þess að hægt sé að setja menn úr embætti, þó að önnur skipan sé gerð almennt á l. um opinber störf en gerð mundi með þessu frv.

Bæði hv. 1. þm. Árn. og ég munum sjálfsagt glöggt, hvernig þessi undanþáguheimild var til komin. Um þetta ákvæði var nokkur reipdráttur í upphafi, eðlilega. En í allshn. var þetta í raun og veru gert fyrir þáverandi dómsmrh. að leyfa, að þessi undanþága, - sem var undantekning, — væri gerð svo sem til tilraunar. Ég tel, að vel megi við það hlíta, að þessi tilraun verði gerð og henni verði haldið áfram, samkvæmt því, sem hér er lagður grundvöllur að í þessu frv. hæstv. ríkisstj., þannig að ekki einungis sú reynsla, sem fengin er með þeim manni í starfinu, verði látin skera úr, heldur verði þessari reynslu haldið áfram með honum í starfinu. Tel ég, að við það megi vel una. Og hv. 1. þm. Árn., sem hefur beitt sér fyrir þessu máli í hv. þd. og samdi á fyrra stigi þess ýtarlegt nál. um þetta, tel ég, að megi vel una því, að frv. er nokkuð komið í annan farveg en það hafði í fyrstu, því að það var ætlazt til þess þá, að þessi núverandi lögreglustjóri víki, með gætilegum hætti, úr embætti sínu. En hér er ekki um neitt slíkt að tala. Ég tel það gott, að þær sættir haldi áfram óbeinlínis, — eins konar sáttargerð má telja það, — að maðurinn heldur áfram starfi sínu, en starfið fær sinn eðlilega lagalega grundvöll, sem er, að lögreglustjórinn í Reykjavík eins og aðrir lögreglustjórar verði að leysa af hendi lögfræðipróf. Hitt þarf ekki að tala um, sem hv. 1. þm. Árn. eyddi of miklu máli í, að lögfræðiprófið gerir ekki allt til þess að gera lögreglustjórann hæfan í sínu starfi. Svo sjálfsagðan hlut ætti ekki að þurfa að halda langa ræðu um hér á hæstv. Alþ., nema það sé gert í þeim tilgangi, að gera eigi lítið úr því, að menn taki próf í þeirri grein, sem er undirstaða undir svo mörgu í þjóðfélaginu. Að vísu sagði sá hv. þm. oft, að hann vildi ekki gera lítið úr lögfræðiprófi. En öll meginræða hans hné að því samt, að lögfræðiprófið eitt væri ófullnægjandi.

Hitt má segja, að nokkuð hafi verið ábótavant nefndarstörfunum að þessu máli, því að n. tók ekki til meðferðar, hvaða hæfileika þessi lögreglustjóri þyrfti að hafa auk lögfræðiprófs. En nú getur orðið samvinna um það hjá hæstv. ríkisstj. og n. að koma þessu í það horf, sem að gefnu tilefni þarf ýtarlega að taka fram í l., að menn þurfi til þess embættis meiri hæfileika en lögfræðipróf, svo sem þjálfun. En vitanlega er ekki rétt, að einn eða annar fái að fara beint frá prófborðinu inn í þetta starf, því að til þess að verða héraðsdómari þarf reynslutíma í starfinu, svo að það er engin hætta á því. Hvergi nokkurs staðar á byggðu bóli er sá undirbúningur látinn nægja til lögreglustjórastarfs, að maðurinn sé nýsloppinn frá prófborði liðsforingjaprófs, sem þeir taka unnvörpum í nágrannalöndum, þótt við höfum lítið af því að segja. Þetta mun 1. þm. Árn. raunar vita. Þá mundi hann ekki undir öðrum kringumstæðum færa það fram sem nein rök, að lögfræðinga greini stundum á um lagaskilning, sem almenningur telji ótvíræðan. Það kemur ekki þessu máli við, en verður raunar ekki reiknað lögfræðingum til greindarleysis, þótt þeir sjái fleiri hliðar en almenningur. Margt er það einnig, sem engin lög ná yfir, svo að ótvírætt sé, og kemur það ekki sízt fyrir í bæ, sem er óðum að vaxa á líkan hátt og Rvík, sem má eigi — að henni raunar ólastaðri — kallast nema hálfsiðuð enn. Æfður lögfræðingur ætti því miklu og vandasömu hlutverki að gegna í lögreglustjóraembættinu. Ég hef átt ýmis skipti við núv. lögreglustjóra og reynt hann að góðu, hann er mesta lipurmenni. Ég var ekki fylgjandi því frv., sem fyrir síðasta þ. lá og varðaði embætti hans, en hér er annan veg að farið til að ná réttu marki. — Ég mun greiða atkv. móti brtt. hv. 1. þm. Árn., en þykir líklegt, að í allshn. geti tekizt samkomulag um brtt. í þá átt, að nánar sé ákveðið í l. um skilyrði manna til skipunar í embætti.