08.10.1943
Neðri deild: 29. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. dómsmrh. og hv. 10. landsk. hafa tekið fram margt af því, sem ég hefði annars þurft að svara hv. l. þm. Árn. Það var meginefni í ræðu hans að stagast á því, að ekki væri nóg, að lögreglustj. væri löglærður maður, — og þurfti enginn að taka fram svo sjálfsagðan hlut. Frv. ákveður meira, það, að hann þurfi að fullnægja almennum dómaraskilyrðum, en þau skilyrði eru í l. talin upp í 7 liðum alls, og er lögfræðipróf aðeins eitt þeirra. Auk þess verður lögreglustj. að fullnægja fleiri skilyrðum, sem n. áleit, að ætti að vera á valdi ráðherra að mæta á hverjum tíma. Öll orð hv. 1. þm. Árn. um þetta voru því tilgangslítil, ef hann hefði haft nokkuð annað fram að bera til stuðnings brtt. sinni. Tilraunir hans til að gera veg lögfræðinga í öllu sem minnstan voru á sama hátt gerðar út í loftið, og af langri forsetareynslu ætti hann a. m. k. að vita, að ekki er tiltökumál, þótt löglærða menn greini á um lagaskilning og hversu lögum skuli beita. Hann veit, að oft greinir lækna á um sjúkdóma manna, og ég held, að hina merkustu búfræðinga geti greint á um búskaparhætti. Hann segir, að þegar mest hafi reynt á lögreglustjórn í Rvík, hafi verið leitað stjórnenda, sem höfðu ekki lögfræðipróf, heldur liðsforingjamenntun, og á við hlutdeild landhelgisvarðskipa í lögregluframkvæmdum út af rússneska drengnum fyrir meir en tveim áratugum. En fyrir 11 árum kom til miklu alvarlegri óeirða, ekki fjarri þinghúsinu, og þá var ekki gripið til þess ráðs að skipta um lögreglustjóra, þótt hann væri þá löglærður og yrði síðar forsrh. Hefði hv. þm. talið æskilegra að gera það? Þm. segir, að hvergi erlendis nægi lögreglustj. að hafa lögfræðipróf. Má það vel vera rétt. En þetta stendur í sambandi við þann misskilning hans, að frv. banni ráðherra að velja lögreglustj., sem hefur eitthvað til brunns að bera umfram það, sem 1. gr. heimtar. Þegar hann talar um, að það nægi lögreglustj. að hafa löglærðan mann í þjónustu sinni, eins og ýmis atvinnufyrirtæki hafi, er þar svo ólíku saman að jafna, að þetta eru ekki rök. Þá talaði hann um handtökur og hve viðkvæmt mál þær gætu verið. Það var ekki ætlun mín, er ég nefndi þær, að rifja upp neitt sérstakt mál, eins og ég tók fram. Hann hélt, að það væri einfalt mál að handtaka 1 eða 2 menn. Það hefur þó komið fyrir, að það hefur reynzt sá vandi, að það hefur kostað lögreglumenn refsiábyrgð og ríkissjóð háar skaðabætur. Svo einfalt sem þm. þykir slíkt, hefur hæstiréttur álitið það allt annað en einfalt mál.

Mér þykir rétt að spyrja hv. 10. landsk. að því, hvað hann meinti með því að tala um öfgar á báða bóga í þessu máli, hvort hann átti þar annars vegar við frv. mitt og fleiri þm. frá síðasta þingi. Ef svo hefur ekki verið,— og ég mótmæli, að þar hafi verið nokkrar öfgar, —óska ég, að hann taki fram, hvar öfgarnar voru.

Ég geri ráð fyrir, að allshn., væntanlega öll, geti komið sér saman um brtt. fyrir 3. umr. í þá átt, sem hv. 10. landsk. nefndi. Enginn þarf að halda, að við, sem vorum meiri hl. n., séum því andvígir, að nánari reglur séu um þetta settar, þótt okkur þætti nægja, að það væri áfram á valdi ráðherra.