08.10.1943
Neðri deild: 29. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. — Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um efnishlið frv. eftir umræður þær, sem orðnar eru, einkum ræðu hv. frsm. Eins og hann tók fram, var á síðasta þingi flutt frv. af okkur og hv. 2. þm. Eyf. (GÞ) um að fella niður undanþágu lögreglustj. í Rvík frá því að fullnægja lögmæltum skilyrðum til skipunar í dómaraembætti. Í þessu frv. hefur ríkisstj. alveg gengið inn á sama princip. Þar er því sem sagt slegið föstu, að lögreglustjórinn í Reykjavík þurfi að vera lögfræðingur. Hins vegar greinir frv. ríkisstj. og frv. okkar eða öllu heldur grg. frv. á um það, hvort núverandi lögreglustj. skuli sitja áfram eða ekki, því að í grg. þessa frv. er gert ráð fyrir því, að hann sitji áfram, en í okkar frv. er gert ráð fyrir því, að lögreglustjóraembættið verði auglýst laust til umsóknar, þó með þeim fyrirvara, að lögin öðlist ekki gildi, fyrr en núverandi lögreglustj. hefur verið séð fyrir öðru embætti samkvæmt 16. gr. stjskr.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þennan embættismann, en vil aðeins benda á það, að sú embættisveiting, sem framkvæmd var með skipun hans, var svo sérstæð, að þegar því „principi“ hefur verið slegið föstu, að í þessu embætti þurfi að vera lögfræðingur, þá kemur varla annað til mála en embættinu verði þegar slegið upp. Ég vil benda á það, að þegar embættið var veitt síðast, þá var því ekki slegið upp og engum lögfræðingi gefinn kostur á því og þá ekki heldur neinum lögfræðingi gefinn kostur á því að búa sig undir þennan starfa. Það er því engu líkara en því hafi verið slegið föstu af veitingarvaldinu, að enginn lögfræðingur væri fær um að gegna þessu embætti. Í embættið var svo settur maður með flugmannsmenntun og það réttlætt með því, að honum yrði fenginn lögfræðilega menntaður fulltrúi! Ég get ekki tekið undir með hv. 10. landsk., en hann vildi gefa þá skýringu á þessu, að þetta hefði verið gert fyrir dómsmrh. sem tilraun, og hann vildi hlíta því, að þessari tilraun yrði haldið áfram. Ég fyrir mitt leyti vil ekki hlíta því og það því fremur sem nú situr dómsmrh., sem hefur ekki óskað, að þessari tilraun yrði haldið áfram.

Það er ekki gert ráð fyrir því í frv. hæstv. ríkisstj., að núverandi lögreglustj. verði að víkja úr embættinu fyrir löglærðum manni, en það verður þó ekki séð, að hæstv. dómsmrh. sé þægð í því, að núverandi lögreglustj. sitji áfram.

Það er eitt atriði í frv., sem ég sé ástæðu til að taka til athugunar fyrir 3. umr. og er svipað því sem fram kom í grg. frv. okkar hv. þm. Snæf. Það var það, sem hæstv. dómsmrh. drap á, að rétt væri að gera sérstakar kröfur um „praktiska“ þekkingu lögreglustj. í Reykjavík. Ég er þar alveg á sama máli. Það er nærri sanni, að þegar lögfræðingum hefur verið gefinn kostur á að sækja um embættið, þá sé þeim einnig gefinn kostur á að búa sig sérstaklega undir að fara með jafnvandasamt embætti og lögreglustjóraembættið í höfuðborg landsins. Ég er því alveg samþykkur því, að inn í frv. ríkisstj. verði sett viðbótarákvæði um einhverja „praktiska“ þekkingu hjá þeim manni, sem settur yrði í embættið. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta.

Ég fagna því, að hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp í frv. sitt það atriði, sem fyrir okkur vakti á síðasta þ. og kemur nú einnig fram í frv. okkar hv. þm. Snæf.