12.10.1943
Neðri deild: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Eins og frsm. allshn., hv. þm. Snæf. (GTh), drap á og ég minntist lauslega á, þegar þetta mál var síðast til umr. hér í d., hafði ég hugsað mér að flytja brtt. við þetta frv. ríkisstj., sem gengi í sömu átt og frv. það, sem ég flutti á þessu þ. ásamt hv. þm. Snæf. (GTh) og á fyrra þ. ásamt honum og 2. þm. Eyf. (GÞ). Eins og ég gat um við fyrri umr. þessa máls, er með frv. ríkisstj. fallizt á það meginprincip okkar frv., að lögreglustjórinn í Reykjavík skuli fullnægja hinum almennu dómaraskilyrðum, þ. e. a. s., skuli þurfa lögfræðilega menntun. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að ekki verði gerð breyt. á skipun embættisins frá því, sem nú er, á meðan sá maður er í því, sem tók við, er gerð var breyt. á l. 1939. Nú er það svo, að meiri hl. allshn., sem hafði þetta mál með höndum, gerði ráð fyrir því að fallast að öllu leyti á þá stefnu, sem kom fram á síðasta þ. í frv. okkar hv. þm. Snæf. (GTh) og 2. þm. Eyf. (GÞ), ekki aðeins um það, að í embættinu sæti lögfræðingur, heldur einnig, að embættinu væri þegar slegið upp með hæfilegum umsóknarfresti, enda hefði núverandi lögreglustjóra verið séð fyrir starfi, sbr. 3. málsgr. 16. gr. stjskr. Ég vil ekki fara nánar út í þetta, en skírskota til nál. 4 allshnm. á síðasta þ., þar sem lagt er til, að breyt. verði samþykkt.

Ég vil leyfa mér að lesa upp brtt. þá, sem ég hef flutt við frv.: „Aftan við 11. gr. bætist ný gr.: Þegar lög þessi öðlast gildi, skal auglýsa lögreglustjóraembættið í Reykjavík laust til umsóknar með hæfilegum fyrirvara, enda hafi þá núverandi lögreglustjóra verið veittur kostur á öðru starfi samkvæmt 3. málsgr. 16. gr. stjskr. Greinatalan breytist samkvæmt þessu.“

Ég vil að lokum segja það, að þegar greitt er atkv. um þessa till., er greitt atkv. um principmál. Það er verið að greiða atkv. um það, hvort haldast skuli ranglát embættaveiting, sem er — mér liggur við að segja — velsæmisbrot, og hvort Alþ. ætlar sér að sætta sig við þessa skipun í embætti í framtíðinni. Ég hygg, að ef Alþ. samþykkir það í þessu máli, að í þessu embætti skuli sitja lögfræðingur, þá sé ekki stætt á þessu, því að þá á í þessari stöðu að vera lögfræðingur, en ekki flugmaður.

Ég þarf svo ekki að fjölyrða um þetta, en vil leyfa mér að óska þess, að hv. d. fallist á þessa skrifl. brtt.